Nú er sögulegt tækifæri – grípum það!
Samfylkingin er sá stjórnmálaflokkur sem öðrum flokkum fremur horfir til framtíðar og þeirra tækifæra sem vænta má í samstarfi og samfélagi við aðrar þjóðir. Hún er eini flokkurinn um þessar mundir sem býður upp á stefnu og framtíðarsýn í peningamálum.
Um leið hefur flokkurinn einhent sér í þau verk sem vinna þarf í kjölfar efnahagshrunsins – og þau verkefni hafa verið ærin. Megináhersla hefur verið lögð á það að leysa vanda skuldsettustu heimilanna og koma hjólum atvinnulífsins í gang á ný.
Þrennt liggur beint við að gera:
• Að hraða endurreisn fjármálakerfisins og skapa skilyrði fyrir enn hraðari lækkun vaxta og endurvinna traust á íslenskt atvinnu- og efnahagslíf með skýrri framtíðarsýn í peningamálum. Fyrirtækin verða að fá upplýsingar um það hvert stefnir í gjaldeyris- og vaxtamálum því það eru lykilþættirnir í starfsumhverfi þeirra.
• Að ráðast strax í arðbærar atvinnuskapandi aðgerðir á vegum hins opinbera til að fjölga störfum.
• Að styðja við þau nýsköpunarfyrirtæki sem eru sprotarnir að stórfyrirtækjum framtíðarinnar.
Þá er löngu tímabært að gera sanngjarnar og knýjandi breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Sömuleiðis þarf að blása til sóknar í landbúnaði í anda sjálfbærrar þróunar. Í báðum þessum atvinnugreinum felast tækifæri í fullvinnslu afurða, vöruþróun og – ef Íslendingar ganga í Evrópusambandið - aðgengi að erlendum mörkuðum.
Reynsla frændþjóða okkar hefur sýnt að aðild að Evrópusambandinu er styrkur en ekki ógn fyrir hinar dreifðu byggðir. Bæði sjávarútvegur og landbúnaður þurfa á stöðugleika, lægri vöxtum og minni rekstrarkostnaði að halda. Óbreytt ástand er ekki í boði og nauðsynlegt að fá það fram með aðildarviðræðum hvort þessar atvinnugreinar séu ekki í sterkari stöðu innan ESB en utan í þeim breytingum sem framundan eru.
Brýnasta verkefnið nú um stundir er að verja velferðina.
Í kosningunum sem nú fara í hönd eigum við Íslendingar skýran valkost. Við eigum þess kost að hafna skeytingarleysi og harðneskju frjálshyggjunnar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur boðað um árabil. Við eigum þess kost að leiða jafnaðarstefnuna til öndvegis í íslenskum stjórnmálum undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttur formanns Samfylkingarinnar.
Þetta er sögulegt tækifæri – og við megum ekki láta það renna okkur úr greipum.
Ólína Þorvarðardóttir
Höfundur skipar 2. sæti á lista Samfylkingarinnar í NV-kjördæmi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.