Örlítið raus um sinu - Áskorendur Hartmann Bragi Stefánsson og og Ólöf Rún Skúladóttir Húnaþingi

„...það ætti að vera knippi af henni í fánanum okkar“ sagði Jón Gnarr í sýningu sinni Ég var einu sinni nörd, og talaði þar um hinn stórvaxna og tignarlega snarrótarpunt. Á meðan norðanáttin ríkir hér á landi með sinn þurrakulda gengur vorið hægt í garð. Nýgræðingur lítið kominn af stað þegar þetta er skrifað, og aðeins gulbrúna sinuna að sjá í úthögum. Það var útsýnið á sinuna út um stofugluggann sem kveikti hugmynd að einhverju að skrifa um, þar sem eftir langan umhugsunarfrest var enn fátt um góðar hugmyndir.

Snarrótin okkar allra, sem lifir af hvaðeina, hefur stutt við bakið á landanum frá örófi, þegar annað gafst upp fyrir kulda hélt snarrótin sínu striki enda harðgerð og stórvaxið gras sem tranar sér gjarnan fram og nær yfirhöndinni á því svæði sem henni bregður fyrir á annað borð. Fóðurgildi hennar er ekki hátt, en betra en ekkert á erfiðum og myrkum tímum, líkt og móðuharðindin svo dæmi sé tekið. Það eru skiptar skoðanir um hvort hún hafi komið hér til lands á undan landnámsmönnum eða hvort hún hafi borist hingað með þeim, og síðan náð útbreiðslu með sauðfé. En eitt er víst að hún hefur verið og mun áfram verða partur af okkur landanum.

Í þessum þurrkum sem nú ríkja er sérstaklega verið að vara við hættu á gróðureldum, að þurr snarrótin sé hættulegur eldsmatur og getur lítill neisti orðið að stóru báli á örskotstundu. Við erum kannski full vön þurrkatíðum hér á Norðvesturlandi, en ekki oft sem það vofir yfir vá um gróðurelda. Sinubrunar geta orðið miklir og stórir, en einnig er jörð sviðin til ræktunar og það þekkt frá örófi að nýgræðingur sprettur ört á svæðum þar sem eldur hefur eitt þeirri gróðurhulu sem þar fyrir var. Þetta er þó kannski heldur á undanhaldi þar sem nútímatækni og vélar bjóða upp á breytta jarðvinnu. Vert er að nefna í kjölfarið að það að brenna sinu er með öllu óheimilt án tiltekinna leyfa. Við vonum nú að það fari fljótt að rigna og að græna grasið fari að sjást um úthagana frekar en gulbrún sinan sem við störum á út um stofugluggann.

Með þessu ómerkilega rausi um sinu getum við ekki komist hjá því að hugsa að sennilega er það rétt hjá Jóni, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, skipar snarrótin þann sess hér á fróni að kannski, bara kannski, ætti að vera knippi af henni í fánanum.
Við þökkum þessa áskorun frá Sofiu til Hartmanns, sem varð að þessu skemmtilega samvinnuverkefni okkar hjónaleysanna, og hlökkum til að skora á þann næsta.

Þau Hartmann Bragi og Ólöf Rún Skúladóttir skora á Önnu Berner að rita pistil í Feyki.

Áður birst í  20. tbl. Feykis 2021

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir