Öryggisbrestir í fjarskiptum – hvað er til ráða?

Bjarni Jónsson alþingismaður skrifar grein í Feyki 12. nóvember sl. um alvarlegan öryggisbrest í fjarskiptum á Skagaströnd. Brestur sem nútíma samfélag á ekki að þurfa að þola og því rétt að taka undir áhyggjur þingmannsins. Hér verður aðeins lagt inn í þessa umræðu.

Tvítenging ljósleiðarakerfa er öryggismál og í því hefur verið unnið á undanförnum árum. Stærsta verkefnið í þeim efnum var sambandsrof sem íbúar á Vestfjörðum upplifðu 26. ágúst 2014. Þá var heill landshluti sambandslaus um nokkurn tíma. Þar var ráðist í viðamiklar endurbætur og ljósleiðari lagður um Djúp og hringtenging því tryggð. Með aukinni útbreiðslu ljósleiðara hafa hringtengingar verið byggðar, sem hafa bætt öryggi fjarskipta.

En framkvæmdir í þessum efnum þurfa ekki alltaf að vera jafn umfangsmiklar og dýrar og voru í tilfelli norðanverðra Vestfjarða.

Vantar 10 km bút

Í tilefni af sambandsrofi á Skagaströnd má benda að sveitakerfin sem bæði Skagabyggð og sveitafélagið Skagafjörður hafa staðið fyrir uppbyggingu á, getur með einfaldri framkvæmd orðið góð lausn. Með því að tengja kerfin saman, má stórbæta öryggi fjarskipta á Skagaströnd. Þetta er einföld framkvæmd og ekki kostnaðarsöm. Slík samtenging mun einnig auka öryggi mun víðar, en aðeins á Skagaströnd. Það vantar aðeins um 10 km bút á milli kerfa Skagabyggðar og Skagafjarðar, eftir því sem ég veit best.

Ég er þess handviss að eigendur og rekendur þeirra sveitakerfa sem að framan eru nefnd, eru til í að ræða slíka lausn.

Með byggingu ljósleiðarkerfa í sveitum, sveitakerfin, hafa nefnilega opnast stórkostlegir möguleikar á að reka og byggja sterkt kerfi fjarskipta. Næsta skref er að nýta samtengi möguleika þeirra kerfa – ekki bara vegna öryggis – heldur ekki síður til að auka verðmæti þeirra. Sveitafélög og eigendur sveitakerfa eiga inni veruleg tækifæri í að ná meiri verðmætum úr þeim kerfum sem þegar eru byggð.

Bætt fjarskiptaöryggi heimila

Að lokum er rétt að minna á það að notendur fjarskipta um ljósleiðara geta einnig, hver og einn, aukið öryggi sitt á sínum heimilum og fyrirtækjum. Sú breyting að hafa lagt af landlínu símans, og treysta nú á ljósleiðara, þýðir oftast að fjarskipti, á heimilum, detta út í straumleysi. En með einföldum búnaði má tryggja slíkt varaafl og stórauka notkunargildi, þó straumleysi verði. Það er ekki mjög kostnaðarsamt – en bætir mjög öryggi. Það er ástæða til að vekja umræðu um þennan þátt.

Haraldur Benediktsson
alþingismaður

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir