Rugludalur í Blöndudal - Torskilin bæjarnöfn

Rugludalur er við vesturjaðar Eyvindarstaðaheiðar. Dalurinn er grunnur og grösugur og í mynni hans var áður bærinn Rugludalur sem er nú í eyði og tilheyrir afréttinni. Þar var áður nægur skógur til kolagerðar, en var mjög eyddur 1708. Eftir Rugludal rennur Rugludalskvísl og vestan dalsins er Rugludalsbunga, 562 m y.s. Vestan hennar er Blöndugilið. Rugludalur er á náttúruminjaskrá, ásamt Blöndugili og Vallgili (svæði 412). Mynd tekin af heimasíðu Húnavatnshrepps.
Rugludalur er við vesturjaðar Eyvindarstaðaheiðar. Dalurinn er grunnur og grösugur og í mynni hans var áður bærinn Rugludalur sem er nú í eyði og tilheyrir afréttinni. Þar var áður nægur skógur til kolagerðar, en var mjög eyddur 1708. Eftir Rugludal rennur Rugludalskvísl og vestan dalsins er Rugludalsbunga, 562 m y.s. Vestan hennar er Blöndugilið. Rugludalur er á náttúruminjaskrá, ásamt Blöndugili og Vallgili (svæði 412). Mynd tekin af heimasíðu Húnavatnshrepps.

Nafnið er víst afargamalt. Finst fyrst í jarðaskiftabrjefi frá 1390 (DI. III. 452-3) ritað Rýglu- tvívegis, en í athugagr. neðanmáls er þess getið að lesa megi ruglu- í brjefinu, og auk þess er brjefið afrit „með norsku handarlagi“. Í reikningi Reynistaðarklausturs 1446 stendur: Rögla- og það á bersýnilega að vera Ruglu- því skráin er víða norsku-skotin (DL IV. 701).

Einhver misskilningur mun það vera hjá Á. M., að bærinn sje „alm. kallaður Uglu-“. (Jarðabók 1703). Það er í ósamræmi við áðurnefndar heimildir og almennan framburð á nafninu nú. Og í Jarðat. Johnsen og l86l (Ný J.bók) er það Ruglu-.

Verð jeg því að álíta að það sje uppruna nafnið og styðst líka eindregið við munnmælin, sem bráðum verða sögð. Jeg hefi stranglega fylgt þeirri reglu í nafnaskýringum, að grípa ekki til munnmælasagna, nema allar aðrar leiðir sjeu lokaðar, því munnmælin eru oft óviss og tilbúningur út frá nöfnunum sjálfum.

Hjer stendur nú einmitt svo á, að ekki eru önnur úrræði til skýringar á Rugludalsnafninu, en munnmæli þau sem nú skal greina. Þau eru æfagömul og á hvers manns vörum í Blöndudal og Svartárdal, þeirra sem eitthvað eru til aldurs komnir.

Í Rugludal á að hafa búið kona er Rugla hjet, og bygt þar fyrst. Rugla á að vera heygð í stórum hól, sem er neðst í túninu, nálægt Blöndu, og heitir hóllinn Rugluhöll. Blanda átti að hafa verið skipgeng (litlum bátum) fram hjá Rugludal og á Rugla að hafa látið setja sig með skipi sínu í hólinn og miklu lausafje.

Þræl einn hafði Rugla fyrir smala sem Kurbrandur hjet. Batt hún strokkinn á bakið á þrælnum, svo mjólkin strokkaðist, meðan hann rölti við ærnar. Eitt sinn bar svo við, að Ruglu varð reikað til sels, sem oftar. Hitti hún þá þrælinn sofandi í hjásetunni. Rann þá kerlingu svo í skap, að hún drap þrælinn og dysjaði þar sem nú er allstór grjóthrúga rjett við heiðarveginn og heitir dys þessi Kurbrandur. Mýramór allstór er þar fyrir neðan og kallast Kurbrandsmýri; var það ásauðarland Ruglu.

Svona hljóða munnmælin. Þó verður að geta þess, að yngri sagnir nefna smalann Kulbrand og örnefnin eftir því. En eldri mönnum (t.d. Benedikt Sigurðssyni á Fjalli) ber saman um hitt nafnið. Guðmundur Jósafatsson hefir og heyrt, að smalinn hafi týnt af ánum og því hafi kerlingu runnið svo í skap, að hún hafi elt þrælinn heimanað frá sjer og fram í heiði. Er það þó 10-20 km. leið. Munnmælin eru yfirleitt skýr og ákveðin. Og væri grafið í Rugluhól eða Kurbrandsdys, mætti sanna eða ósanna munnmælin.

Mönnum ber saman um að Kurbrandsdys sje hlaðin af mönnum. Grjót er þar hvergi í nánd, nema í gömlum uppgrónum lækjarfarvegi. Kurbrandsnafnið þekkist hvergi annarsstaðar (Kulbrandur ekki heldur). En það minnir á Kursveinn í nafninu Kursveinsstaðir (rangt: Kúrsveins-, siá Safn IV. B.). Kura er gælunafn af kýr og þekkist enn í alþýðumáli. Getur vel verið að smalar hafi stundum gætt kúa og ásauða saman og fengið þetta gælunafn sem auknefni (Kuru-Brandr ?). E. H. Lind þekkir hvorugt nafnið (sjá Norsk-Isländska dopnamn och fingerade namn från Medeltiden). Ruglu-nafnið finst ekki annarsstaðar (er þó ekki ótrúlegra nafn en t.d. Hrifla og Mæva sem bæði þekkjast).

Líklegast að þetta hafi verið auknefni konunnar í Rugludal. Í norskum mâllýzkum finst rugla og þýðir valt göngulag (einnig óreglu á hlutum, sbr. rugla saman og ruglingur). Nafnið gæti upphaflega verið Ryglastytting fyrir hrygla- og á það bendir rithátturinn í DI. III. Hefði hún þá haft hryglukendan andardrátt og fengið af því nafnið? (n, rukla, sæ. rokla, e. ruckle = þung öndun [s-stofn], gotn. hrúkjan = gala [sjá Torp]).

Rannsóknir og leiðréttingar Margeirs Jónssonar

Áður birst í 29. tbl. Feykis 2020

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir