Sameining styrkir samfélagið

Sameining sveitarfélaga í A Hún er mjög mikilvæg. Fjölmörg sóknarfæri eru fyrir svæðið í heild ef íbúar allra sveitarfélaga samþykkja sameiningu. Þá verðum við í einu sveitarfélagi eftir sveitarstjórnarkosningar næsta vor. Tíminn þangað til yrði notaður til að undirbúa þennan merka áfanga mjög vel.

Verulegt og farsælt starf til undirbúnings sameiningar hefur verið unnið að undanförnu. Þar koma vel fram kostir og gallar. Kostirnir eru að mínu mati yfirgnæfandi. Skynsamleg framtíðarsýn að hafa stjórnsýslu nýs sveitarfélags bæði á Skagaströnd og Blönduósi. Á sama hátt frábært að vera með metnaðarfullt markmið að nýta húsnæðið á Húnavöllum í ný og flott verkefni. Góð áform að hafa nokkurs konar almenningssamgöngur milli sveitar og þéttbýlis, sem nýttist jöfnum höndum fyrir skólafólk og þá sem njóta vilja félagsstarfs fyrir eldri borgara. Ég sé fyrir mér að efla mætti framhaldsmenntun í héraðinu. Unga fólkið gæti þannig dvalið lengur heima en stundað gagnlegt nám, sem rekið yrði í samstarfi við stærri menntastofnanir.

Nágrannar okkar í Húnaþingi vestra sameinuðu alla hreppana fyrir meir en tveimur áratugum og heyri ég ekki nokkurn mann þar tala um að það hafi verið misráðið. Nokkru eftir þessa sameiningu sameinaðist Bæjarhreppur á Ströndum við Húnaþing vestra. Þegar einhverjir hér í austursýslunni vildu frekar reyna að sameinast í einum áfanga við Húnaþing vestra, var svarið einfalt. Klárið fyrst að sameina hreppana í A Hún og talið svo við okkur.

Til að sameining hér í sýslu nái miklum árangri þarf ný sveitarstjórn að leggja áherslu á að styðja og styrkja alla hluta hins nýja sveitarfélags. Legg áherslu á að við erum að tala um nýtt sveitarfélag. Enginn af núverandi hreppum er að ganga inn í einhvern af þeim hreppum sem fyrir eru. Mikilvægt er að þeir níu sveitarfulltrúar, sem kjörnir verði spanni allt sveitarfélagið með dreifðri búsetu, einkar mikilsvert fyrstu árin eftir sameiningu. Ég sé alveg fyrir mér að gott gæti verið að oddviti þessa nýja sveitarfélags kæmi einhvers staðar úr dreifbýlinu. Það eykur möguleikann á að við náum fyrr að styrkja og efla samstarf og samvinnu þéttbýliskjarnanna. Það styrkir allt héraðið. Sé aftur vitnað í nágranna okkar vestan Gljúfurár, óttuðust margt af fólkinu í sveitunum að þeir yrðu alveg afskiptir með stjórn sveitarfélagsins, ef þeir sameinuðust Hvammstanga. Raunin er að núverandi sveitarstjórn er að meirihluta skipuð fulltrúum, sem búa í dreifbýlinu.

Algengt er að fólk sé hrætt við breytingar. Margir segja, við vitum hvað við höfum en við vitum ekkert hvernig nýtt skipulag reynist. Sem betur fer er skilningur og stuðningur við sameiningu vaxandi hér í sýslu. Á kynningarfundi um sameiningarmál á Skagaströnd lýstu tveir fyrrverandi sveitarstjórar sig mjög ákveðið fylgjandi sameiningu. Lýstu því að óbreytt ástand stuðlaði að áframhaldandi hnignun. Sýnileg sóknarfæri væri hins vegar í sameiningarhugmyndum og menn yrðu að leggja enn meiri áherslu en hingað til að samhliða sameiningu yrði að sækja störf til ríkisins og koma fyrir í þessu nýja sveitarfélagi. Þar væru víða möguleikar. Oddvitar þriggja af þeim fjórum hreppum sem hafa verið í sameiningarviðræðum hafa lýst því yfir að þeir styðji sameiningu. Oddviti Skagastrandar sagði hins vegar á fundinum á Blönduósi að ef kjósa ætti um sameiningu í dag myndi hann hafna henni. Von mín er sú að hann sjái ljósið fyrir sameiningakosningarnar 5. júní og styðji sameiningu.

Í þessu sambandi mætti velta upp þeirri sviðsmynd að sameining yrði felld á Skagaströnd. Sveitirnar og Blönduós ákvæðu hins vegar að sameinast. Á þann hátt myndaðist fjölmennara samfélag en er nú í Húnaþingi vestra og um margt svipað. Íbúafjöldi yrði rúmlega 1400 manns en er nú rúmlega 1200 í Húnaþingi vestra. Reikna má með að ávinningur yrði af þeirri sameiningu eins og var í Húnaþingi vestra. Sveitarfélagið gæti eitt sér haldið úti þeirri starfssemi sem sveitarfélag þarf að sinna, þ.m.t. þeim verkefnum sem Austur Húnvetningar sinna nú í byggðasamlögum. Þá yrði börnum úr núverandi Skagabyggð trúlega ekið á Blönduós, svipað og einu sinni var stórum hluta barna úr Vindhælishreppi hinum forna ekið í gegnum Blönduós í skóla á Húnavöllum. Ekki yrði það til að styrkja byggð á Skagaströnd, en ef þetta yrði eitt sveitarfélag er vilji sameiningarnefndarinnar að grunnskóli verði bæði á Skagaströnd og Blönduósi.

Mín von er sú að þessi sviðsmynd verði aldrei að veruleika. Heldur samþykki öll sveitarfélögin að mynda nýtt og öflugt sveitarfélag að loknum sveitarstjórnarkosningum vorið 2022. Ég sé fjölmörg tækifæri til að efla mannlíf, atvinnu og góða framtíð allra. Mikilvægt er að rjúfa þá kyrrstöðu sem hér hefur verið. Það gerist best með því að við sameinumst í eitt sveitarfélag. Engin trygging er að af nokkurri sameiningu verði, ef svo illa fer að fyrirliggjandi sameiningartillagan verði felld í einu af sveitarfélögnum, sama hvort þeirra það verður. Ábyrgð þeirra er mikil sem þannig haga atkvæði sínu. Þeir vilja halda í áframhaldandi kyrrstöðu, jafnvel hnignun en sjá ekki sóknarfærin sem bíða handan við hornið. Það eru því miður margir sem eru hræddir við breytingar og sjá ekki ljósið.

Sveinsstöðum á hvítasunnu 2021
Magnús Ólafsson

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir