Samhengislaus Byggðastefna
Samfélagsleg ábyrgð. Þvílíkt svakalegt og stórbrotið hugtak, sem margir taka sér í munn við hátíðlegt tækifæri, en færri efndir fylgja. Það fór ekki mikið fyrir samfélagslegri ábyrgð stjórnvalda eða útgerðarmanna, þegar núverandi kvótakerfi var sett á laggirnar. Kvóti var seldur úr byggðarlögum og eftir sat fólk með verðlausar eignir, sem það hafði byggt með trú á framtíð byggðarlagsins.
En það má líka þakka mörgum útgerðarmanninum, sem höfðu þessa samfélagslegu ábyrgð, þegar þeir keyptu kvóta til að styrkja atvinnulíf annarra bæjarfélaga. Í raun finnst mér stundum eins og það sé einhver samfélagsleg óábyrgð í genum margra. Þar sem eiginhagsmunir ráða öllum gjörðum og okkur komi ekki við aðrir samborgarar, þó þeir hafi á einn eða annan hátt stuðlað að arðsemi fyrirtækjanna. Til að slá síðan ryki yfir gjörðir sínar, þykir fínt að gefa brot af þeim verðmætum, sem sópað hefur verið úr byggðarlögum í einhverskonar samfélagsverkefni. Þetta á víst að slá á sárustu neyðina. Það mætti e.t.v. líkja þessu við það að skera fæturna undan fólki og bjóða því svo fría verkjatöflu til að slá á mestu verkina.
Byggðastefna er ekkert annað en samfélagsleg ábyrgð stjórnvalda. Að tryggja það, að hvert byggðarlag hafi aðgang að þeim auðlindum, sem liggja í túnjaðri þess og fólki, sem vill búa á þessum stöðum sé tryggð sú grunnþjónusta, sem þarf að vera til staðar til að sveitarfélög geti lifað og dafnað. Þegar fyrirtækjum hefur verið tryggður aðgangur að náttúruauðlindum byggðalagsins, þá er það samfélagsleg ábyrgð þeirra að nýta sem best þessar auðlindir og sjá til þess að það fólk, sem trúir á framtíð byggðalagsins, geti fjárfest þannig að hluti arðsins sitji eftir til uppbyggingar.
Vandamál landsbyggðarinnar hafa meðal annars verið flótti ungs fólks, sem leitar sér menntunar og hefur ekki að neinu að hverfa eftir nám, þar sem samfélagslegur arður hefur ekki verið notaður til að byggja upp tækni og nýsköpun samfara annarri samfélagslegri uppbyggingu byggðarlagsins.
Eitt af þeim grunn gildum, sem stjórnvöld þurfa að hafa í huga, er hnitmiðuð byggðastefna, sem tekur mið af þeim náttúruauðlindum, sem hvert svæði býr yfir. Slík stefna verður ekki gerð eða framkvæmd nema að það sé samhengi á milli auðlindastjórnunar og byggðastefnu. Auðlinda-stjórnun er jú hluti af byggðaþróun, en það virðist alveg hafa gleymst hjá núverandi og fyrri ríkis-stjórnum, að þetta þyrfti að hanga saman. Það var allavega ekki mikið hugsað um þetta samhengi þegar útgerðarmönnum var leyft að selja kvóta úr byggðalögum eða þegar orkuver var selt til erlendra aðila. Í sjálfum sér er ekkert að því að selja auðlindir hverjum sem er ef það er tryggt að hagnaður eða arður af þeim sitji að stórum hluta eftir í uppbyggingu, viðhaldi og vexti byggðalagsins í formi skatt- og launatekna. Þetta hlýtur að vera sú samfélagslega ábyrgð, sem íbúar hljóta að gera til stjórnvalda og atvinnurekenda.
Hægri Grænir er flokkur, sem hefur markað sér atvinnubyggðastefnu, sem á að tryggja samhengi á milli auðlindastjórnunar og byggðastefnu. Með því móti tökum við nýtt skref í uppbyggingu og framtíðarsýn fyrir landsbyggðina. Ég hvet alla til að kynna sér stefnu flokksins á www.xg.is
Sigurjón Haraldsson, viðskiptafræðingur.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.