Samhent handavinnuhjón

Hjónin María Hjaltadóttir og Reynir Davíðsson eru handverksfólk vikunnar. Um áratuga skeið voru þau kúabændur á Neðri-Harrastöðum í Skagabyggð og með búskapnum voru þau landpóstar. María og Reynir eru flutt til Skaga-strandar og hafa komið sér þar vel fyrir, þar hafa þau komið sér uppi góðri aðstöðu fyrir áhugamálin, en Reynir útbjó sér smíðaskemmu í kjallaranum þar sem hann er með rennibekk og alls kyns verkfæri. Þau segja að þegar þau hættu búskapnum hafi þau loks haft tíma fyrir áhugamál.

María lærði snemma að prjóna og í grunnskóla lærði hún handavinnu hjá Svövu Sigmundsdóttur frá Björgum. Síðan lá leiðin í Kvennaskólann á Blönduósi, þar lærði hún fatasaum, prjón og vefnað.

Reynir segir að þegar hann hætti að stunda búskapinn þurfti hann að fara að finna sér eitthvað skemmtilegt að gera, hann keypti sér rennibekk og byrjaði að renna. „Ég hef nú ekki farið á nein námskeið en fengið leiðsögn frá öðrum rennismið, Valgeiri Benediktssyni, og svo sagði Gunnlaugur Sigmarsson, gamall nágranni minn, mér heilmikið til,“ segir Reynir. Fyrst fór hann að gera við rokka, þessa gömlu góðu, hann segir að það hafi spurst út og fékk hann í framhaldi af því nokkra senda sem hann gerði við. Í framhaldi af því fór hann að smíða rokka alveg frá grunni og þá í smækkaðri mynd. „Síðan fór ég að smíða penna og að renna og smíða hnotusnældur, en ég hef smíðað og selt nærri þúsund stykki af þeim,“ segir hann.

Hjónin eru samhent og leggja gjarnan saman krafta sína, Reynir segir að frúin sé mjög dugleg að prjóna og hana hafi vantað tölur. Hann hafi þá byrjað að renna þær en einnig bjó hann til sjalaprjóna. Þegar María var 12 ára gömul saumaði hún svokallað puntuhandklæði, en vantaði alltaf hillu fyrir það. Þegar hjónin fluttu til Skagastrandar kom það í leitirnar og Reynir smíðaði hillu sem smellpassar fyrir handklæðið. Í dag eru hillan og handklæðið í öndvegi í eldhúsinu þeirra.

Aðspurð segir María að henni finnist skemmtilegast að vinna í höndunum og hún vilji helst hafa fjölbreytta handavinnu og skipta á milli þess að prjóna og sauma. Hún saumar Bucilla handavinnu, en það er saumaskapur þar sem unnið er með pallíettur og perlur. Bucilla er aðallega jóladót og hefur hún saumað jólasokka fyrir öll sín barnabörn og langömmubörn. María segist líka hafa gripið aðeins í bútasaum og saumað dúka og vegg-teppi.

Þessa dagana er María með prjón-ana á lofti en bíður spennt eftir Bucilla sokk sem hún á von á og þarf að sauma fyrir jólin.

Þau hjón nýta tölvutæknina til að leita sér að hugmyndum að verkefnum, þá bæði YouTube og Pinterest. Einnig er alveg ógrynni af hugmyndum að fá í hinum ýmsu handverkshópum á Facebook.

Þegar hjónin eru spurð hverju þau séu stoltust af þá nefnir María að hún sé ánægust með jólakrans og gauksklukku sem hún hafi saumað í Bucilla. Reynir segist nýlega hafa smíðað hestakerru, svona alveg ekta með gamla laginu. „Fyrirmyndin að kerrunni er málverk sem ég á, sonur minn smíðaði sem fyrir mig hest svo hægt er að beita fyrir hestakerruna.“

Birt í 40. tbl. 2020 í Feyki

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir