Setning Sæluviku Skagfirðinga 2025 og endurgerð Faxa | Einar E. Einarsson skrifar
Ég vil byrja á að óska ykkur öllum gleðilegs sumars á þessum fallega degi sem jafnframt er síðasti sunnudagur aprílmánaðar, en hann hefur verið upphafsdagur Sæluviku Skagfirðinga í um 30 ár. Sæluvika Skagfirðinga á sér hins vegar mun lengri sögu, en heimildir herma að Sæluvikan hafi orðið til í framhaldi af svokölluðum sýslunefndarfundum sem haldnir voru einu sinni á ári með Sýslumanni og helstu forsvarsmönnum allra hreppa í Skagafirði.
Fyrsti sýslunefndarfundurinn sem haldinn var á Sauðárkróki, var árið 1886, en þar áður voru þeir utan Sauðárkróks, en allavega einn slíkur fundur var haldinn á Reynistað árið 1874 og segja sumar heimildir að sá fundur og sú skemmtun sem honum fylgdi hafi verið upphafið að Sæluviku.
Hvar upphafið nákvæmlega liggur er því aðeins erfitt að segja en fyrstu áratugina hét þessi vika Sýslufundavika og var þá notuð til að ræða hin ýmsu verkefni og málefni sem brunnu á íbúum Skagafjarðar. Þar kom Framfarafélag Skagfirðinga einnig sterkt inn í skipulagningu funda fyrir íbúa og lagði það sérstaka áherslu á innanhéraðsmál.
Þar sem þessi fundahöld þóttu afar fróðleg og skemmtileg byrjaði fólk að fjölmenna úr dreifðum byggðum Skagafjarðar til að taka þátt í umræðunni og því félagslífi sem því fylgir þegar fólk kemur saman. Hægt og rólega fór svo dagskrá sýslunefndafundanna að vinda upp á sig með ýmiskonar „sjónrænum viðburðum“ eins og það var kallað, en þá var farið að skipuleggja kórsöng, leiksýningar, dansleiki og eftir því sem tímarnir breyttust komu inn listasýningar, bíósýningar og margt fleira mætti nefna. Hægt og rólega breyttist svo nafnið á Sýslufundavikunni í Sæluvika Skagfirðinga, en fyrstu heimildir um það nafn á prenti eru frá árinu 1917 og eftir 1920 virðist það vera orðið allsráðandi.
Allar heimildir sem maður les um lífið á Sæluviku eða stemminguna sem skapaðist í kringum hana í héraðinu þóttu einsdæmi á Íslandi. Greinahöfundar dagblaða þess tíma lýsa hver af öðrum allri þeirri tilhlökkun og stemmingu sem byggðist upp í gegnum árið hjá héraðsbúum, og svo hvernig fólk fjölmennti gangandi, ríðandi eða á sleðum til Sauðárkróks til að taka þátt í gleðinni, sem það svo tók aftur með sér út í byggðirnar og höfðu þannig jákvæð áhrif á umræðuna og menninguna um allan fjörð.
Hvað Sæluvika Skagfirðinga er því gömul er ekki alveg gott að segja en hún gæti verið hátt í 150 ára hefð sem án nokkurs vafa hefur haft mikil áhrif á líf Skagfirðinga öll árin og gerir enn í dag. Einnig má velta fyrir sér hvort öll sú jákvæða umfjöllun sem hún fékk í dagblöðum og tímaritum á fyrri hluta 20. aldarinnar hafi raunverulega orðið ástæða þess að fleiri héruð fóru að standa fyrir sambærilegum hátíðum, en víða má sjá greinarhöfunda skrifa mjög jákvætt um þá stemmingu sem varð meðal fólks í Sæluvikunni og þau jákvæðu áhrif sem hún skildi eftir sig.
En hér á Sæluviku Skagfirðinga verður í ár fjölbreytt dagskrá að venju og þó að margt hafi breyst í tímans rás verða á næstu dögum margskonar skemmtanir í boði eins og leiksýning hjá leikfélaginu, myndlistasýningar hér í Safnahúsinu, Héðinsminni og víðar, söngskemmtanir hinna ýmsu kóra, gömludansaball, flóamarkaður í Melsgili, útgáfutónleikar í Gránu, námskeið í djúpslökun og margt fleira væri hægt að telja upp. Það er því ljóst að Sæluvika Skagfirðinga lifir enn þá góðu lífi og skora ég á fólk að kynna sér vel dagskrána og taka þátt í sem flestum þessara viðburða því reynslan sýnir að skemmtanir og samkomur þar sem fólk hittist eru mannbætandi.
En hverfum aftur til fortíðar eða nánar tiltekið ársins 1971, en það ár var mikið hátíðarár í Skagafirði því fyrir utan hina árlegu Sæluviku var haldinn sérstök bæjarhátíð á Sauðárkróki í tilefni af því að 100 ár voru liðin frá því fyrsta heilsárs íveruhúsið var reist hér af þeim Árna Árnasyni og Sigríði Eggertsdóttir, ásamt börnum þeirra tveimur, Margréti og Hjálmari Friðriki. Húsið stóð utarlega í landi Sauðár eða rétt vestan við vík sem nefndist Sauðárkrókur, en hún þótti góð til lendingar og höfðu bændur úr vestanverðum Skagafirði haft þar verbúðir sem þeir nýttu að vori og hausti til sjósóknar. Í dag köllum við svæðið þar sem hús Árna og fjölskyldu stóð Lindargötu 7.
Í tilefni þessara merku tímamóta árið 1971 ákvað bæjarstjórn Sauðárkróks að reisa höggmynd af hesti og skyldi hún standa á Faxatorgi, en það nafn fékk torgið hér árið 1964, en sumir vildu á þeim tíma skýra torgið Hesthúsatorg með vísan í Sýsluhesthúsið sem hér var þá. Ákvað bæjarstjórn jafnframt að semja við listamanninn Ragnar Kjartansson um gerð höggmyndarinnar. Var verkið kostað með peningaframlagi frá Menningarsjóði Sparisjóðsins og úr bæjarsjóði en fótstallinn gáfu iðnaðarmenn á Sauðárkróki.
Það er óhætt að segja að þessi höggmynd af hestinum Faxa sem var afhjúpuð á bæjarhátíðinni 4. júlí 1971, hafi alla tíð sett mikinn og sterkan svip á Sauðárkrók. Fyrir utan þá mikilvægu minningu sem höggmyndin varðveitir þá hefur hún einnig verið á margan hátt táknmynd Skagafjarðar og þeirrar miklu hestamennsku sem hér er stunduð. Þótti listaverkið glæsilegt frá fyrsta degi og var það mál manna að Ragnari Kjartanssyni hefði tekist vel til við gerð styttunnar. Við athöfnina, sem var hátíðleg höfðu hestamenn, sem jafnframt stóðu heiðursvörð við athöfnina þá líkt og fulltrúar Hestamannafélagsins Skagfirðings gera hér í dag, meðal annars á orði að hesturinn væri glæsilegur og það væri líf í honum. Það var sonardóttir Árna og Sigríðar sem afhjúpaði styttuna en Faxi var fyrsta útihöggmyndin sem sett var upp hér á Sauðárkróki.
Sveitarstjórn Skagafjarðar ákvað svo árið 2023 að ráðast í endurbætur á þessu glæsilega listaverki og var það gert og unnið í samráði við dætur Ragnars, en það ár hefði Ragnar orðið 100 ára. Sjálf endursteypa styttunnar fór fram úti í Þýskalandi þannig að í dag má segja að Faxi sé einn af fáum hesturinn á Íslandi sem hefur fengið að fara úr landi og koma aftur til landsins. Við endurgerð stöpulsins sem Faxi stendur á hefur verið sett lýsing sem vonandi á eftir að gera þetta flotta listaverk enn þá meira áberandi. Einnig er kominn skjöldur með áletrun um hvaða listamaður gerði höggmyndina og af hvaða tilefni hún var reist á sínum tíma.
Ég segi því við Faxa endurgerðan, velkominn aftur heim í Skagafjörð og segi Sæluviku Skagfirðinga 2025 setta.
Einar E. Einarsson
Forseti sveitarstjórnar Skagafjarðar
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.