Skagfirðingarnir í HA eru öflugir þátttakendur í háskólasamfélaginu

Í framkvæmdastjórn sitja þær Sólveig Birna Elísabetardóttir, formaður SHA, og Silja Rún Friðriksdóttir, varaformaður SHA. Sólveig Birna er Gilsari, dóttir Elísabetar Stefánsdóttur og Halldórs Gestssonar. Silja Rún er dóttir Sigríðar Skarphéðinsdóttur og Friðriks Þórs Jónssonar á Skriðu í Blönduhlíð.

Hinir Skagfirðingarnir í stúdentaráði SHA eru: Dagmar Ólína Gunnlaugsdóttir, dóttir Helgu Sjafnar og Gunnlaugs Hrafns í Hátúni í Skagafirði, Hörður Hlífarsson, sonur Sigríðar M. Helgudóttur og Hlífars Hjaltason í Víðiholti, Berglind Vala Valdimarsdóttir, dóttir Gunnu Stínu og Valda í Sólheimum í Sæmundarhlíð og loks Fanney Gunnarsdóttir, dóttir Gunnars Steingrímssonar og Bergþóru Pétursdóttur frá Stóra-Holti í Fljótum.

„Við Silja sitjum sem sagt í framkvæmdastjórn félagsins ásamt Hermanni Biering, Akureyringi. Okkar helsta hlutverk er að sjá um daglega umsýslu félagsins og vera tengiliðir við háskólann auk þess sem við sjáum um öll samskipti við yfirstjórn HA. Við sitjum til dæmis reglulega samráðsfundi með rektor þar sem farið er yfir mál sem liggja fyrir hverju sinni. Eitt af því sem einkennir HA er hversu persónulegur háskólinn er, það er lagt mikið upp úr því og það er virkilega hlustað á raddir stúdenta, starfsfólk vill heyra frá okkur og tekur virkilega mark og mið af því sem við höfum fram að færa hverju sinni,“ segir Sólveig Birna.

Það er kannski pínu flókið að skilja hvernig þetta er uppbyggt. SHA er félagið, innan þess starfar stúdentaráð og þar eiga sæti fulltrúar aðildarfélaga SHA ásamt fulltrúa í háskólaráði og formönnum nefnda félagsins. Framkvæmdastjórnin er svo samsett af formanni, varaformanni og fjármálastjóra og starfa þau í umboði stúdentaráðs, allar ákvarðanir fara í gegnum stúdentaráð og framkvæmdastjórn ber svo ábyrgð á að koma málum áfram, halda skrifstofu félagsins opinni, koma málum til stúdentaráðs og svo framvegis.

„Þetta starf er virkilega krefjandi en einnig mjög gefandi og lærdómsríkt. Ég hef öðlast mikla þekkingu og reynslu í hagsmunabaráttu stúdenta með því að sitja í ýmsum ráðum og nefndum sem tengjast hagsmunabaráttu og hagsmunagæslu stúdenta. Þá erum við Silja Rún einnig fulltrúar í LÍS - Landssamtökum íslenskra stúdenta þar sem við fundum reglulega með fulltrúum allra háskóla landsins sem eru öll með það sameiginlega markmið að gæta hagsmuna allra stúdenta á Íslandi,“ segir Sólveig Birna.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Skagfirðingar láta til sín taka í störfum SHA en þó í fyrsta skipti sem hlutfall þeirra er svo hátt innan Stúdentaráðs. „Skagfirðingar eru jú þekktir fyrir að vera hörku duglegt fólk og áberandi þeim störfum sem þeir taka sér fyrir hendur. Þetta kemur því ekkert á óvart að Skagfirðingarnir í HA séu öflugir þátttakendur háskólasamfélagsins á Akureyri og hafa verið það undanfarin ár, ýmist í Stúdentaráði, sem þátttakendur í nefndum og ráðum háskólans auk þess sem Skagfirðingar eru mjög duglegir að taka þátt í kynningarstörfum HA.

Þegar HA býður nemendum Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, FNV, heim á Opna daga þann 29. október næstkomandi munu kunnuleg skagfirsk andlit taka vel á móti þeim,“ segir Sólveig Birna glöð í bragði að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir