Skemmtileg kvöldstund í Bifröst | Kíkt í leikhús

Það er mikið fjör á sviði Bifrastar þessa dagana þar sem Leikfélag Sauðárkróks sýnir farsann Flæktur í netinu. MYND: GG
Það er mikið fjör á sviði Bifrastar þessa dagana þar sem Leikfélag Sauðárkróks sýnir farsann Flæktur í netinu. MYND: GG

Undirritaðar brugðu undir sig betri fætinum og renndu á krókinn í vor blíðunni til að sjá uppfærslu Leikfélags Sauðárkróks á farsanum Flæktur í netinu eftir Ray Cooney í leikstjórn Valgeirs Skagfjörð.

Flæktur í netinu er sjálfstætt framhald leikritsins Með vífið í lúkunum. John Smith hefur lifað tvöföldu lífi árum saman, á tvær konur og börn með báðum. Nú er þessum lífsmáta ógnað, þegar börnin hans kynnast á netinu og áforma að hittast. Inn í fjörið fléttast leigjandinn Stanley og aldraður faðir hans og úr verður flækja sem vandséð er hvernig getur raknað úr.

Það er ekki hægt að kvarta yfir hægri framvindu í farsanum “Flæktur í netinu” hjá Leikfélagi Sauðárkróks sem er sex hurða farsi af bestu gerð. Leikarar héldu vel uppi því sem einkennir góðan farsa miklum hraða og þéttri atburðarás. Þeir héldu fullri ferð og spennu alla sýninguna. Allir leikarar stóðu sig vel og sýnilegt að leikarar voru ekki að stíga fyrstu skrefin í því erfiða leikformi sem farsinn er. Leikmyndin var stílhrein með rólegum litatónum og lýsingu og þannig var áherslan aðallega lögð á textann og persónurnar sem skiptu öllu máli og allar tímasetningar steinlágu.

Fínasta útfærsla og skemmtileg kvöldstund.

Ber að hrósa leikfélaginu sérstaklega fyrir þann metnað að setja upp tvö leikverk á leikári og huga bæði að ungu og eldri kynslóðinni. Áfram LS.

Hanna Bryndís Þórisdóttir
Vibekka Arnardóttir
Margrét Konn Kristinsdóttir
stjórnarkonur Leikfélags Fjallabyggðar

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir