Sterkt að hafa viljayfirlýsingu við stjórnvöld - Koltrefjaverksmiðja í Skagafirði

Við undirritun viljayfirlýsingar um uppbyggingu koltrefjaframleiðslu í Skagafirði 27. maí sl. F.v. Gísli Sigurðsson, oddviti Sjálfstæðismanna, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Stefán Vagn Stefánsson, oddviti Framsóknarmanna og Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Svf. Skagafjarðar. Aðsend mynd.
Við undirritun viljayfirlýsingar um uppbyggingu koltrefjaframleiðslu í Skagafirði 27. maí sl. F.v. Gísli Sigurðsson, oddviti Sjálfstæðismanna, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Stefán Vagn Stefánsson, oddviti Framsóknarmanna og Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Svf. Skagafjarðar. Aðsend mynd.

Í endaðan maí síðastliðnum skrifuðu Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Sveitarfélagsins Skagafjarðar, undir viljayfirlýsingu um uppbyggingu koltrefjaframleiðslu í Skagafirði. Í frétt um málið sagði að viljayfirlýsingin samræmist stefnu stjórnvalda um eflingu nýfjárfestingar í íslensku atvinnulífi og samkeppnishæfni Íslands á sviði nýfjárfestingar, sérstaklega á dreifbýlum svæðum líkt og á Norðurlandi vestra.

Í viljayfirlýsingunni kemur fram að stjórnvöld munu vinna með Sveitarfélaginu Skagafirði að innviðauppbyggingu á svæðinu með það að markmiði að fá mannaflsfreka og umhverfisvæna fjárfestingu inn á svæðið. Liður í þeirri uppbyggingu er m.a. að tryggja raforkuöryggi á svæðinu með Sauðárkrókslínu 2 en framkvæmdir við lagningu hennar hófust í vor. Feykir sendi línu á Gísla Sigurðsson, formann byggðarráðs Svf. Skagafjarðar, og forvitnaðist um málið.

„Viljayfirlýsing sú sem Sveitafélagið Skagafjörður og iðnaðarráðherra skrifuðu undir er viðurkenning á þeirri miklu vinnu sem Sveitafélagið Skagafjörður hefur unnið á undanförnum misserum í samvinnu við menntastofnanir og hagsmunaaðila á svæðinu. Hefur svæðið verið leiðandi í rannsóknum og undirbúningi að uppbyggingu koltrefjaframleiðslu á Íslandi.

En fyrst og fremst er viljayfirlýsingin staðfesting á því að stjórnvöld munu vinna með Sveitarfélaginu Skagafirði að innviðauppbyggingu á svæðinu með það að markmiði að fá mannaflsfreka og umhverfisvæna fjárfestingu inn á svæðið.“

Nú eru 12 ár síðan félagið UB koltrefjar var stofnað og þá mikil bjartsýni um að verksmiðjan risi innan fárra ára. Hvað hefur helst staðið í vegi fyrir uppbyggingunni?
„Já, það passar. Fyrir tólf árum leit verkefnið vel út og spennandi tíma voru fram undan en þá kom bakslag í verkefnið vegna alþjóðlegrar efnahagslægðar og eftirspurn eftir koltrefjum minnkaði. Hérna í Skagafirði var það afhendingaröryggi á raforku og flutningsgeta raforkukerfisins sem var stærsta vandamálið en undanfarin misseri hefur verið unnið að því að koma af stað uppbyggingu innviða raforkukerfisins í Skagafirði og erum við klárlega skrefi framar núna en á sínum tíma í þeim málum.“

Hvað geturðu sagt mér um stöðu verkefnisins í dag og framtíðarsýn sveitarfélagsins til þess?
„Núna stendur yfir upplýsingaöflun og endurnýjun á þeim gögnum sem að búið var að vinna á sínum tíma. Íslandstofa og Sveitafélagið Skagafjörður eru að vinna þessa undirbúningsvinnu saman og fundum við strax fyrir því í samtalið við Íslandstofu hvað það var sterkt að hafa viljayfirlýsinguna við stjórnvöld. Stefnt er á að undirbúningsvinnunni verði lokið seinni part þessa árs.

Sveitafélagið Skagafjörður var komið í sambandi við koltrefjaframeiðendur og hefur haldið sambandi við þá í gegnum árin sem á eftir að skila sér  þegar verkefnið fer aftur af stað.“

Hvað geturðu sagt mér um koltrefjaverksmiðju almennt og af hverju hún ætti að vera samfélaginu í Skagafirði góð?
„Koltrefjar eru notaðar sem styrkingarefni við framleiðslu á margs konar vörum og leysa af hólmi ýmis þekkt smíðaefni í iðnaði svo sem ál og stál, sérstaklega í framleiðslu þar sem léttleiki og styrkur eru höfð að leiðarljósi. Sem dæmi um  notkunarmöguleika á koltrefjum má nefna flugvélaiðnaðinn, bílaiðnaðinn og við framleiðslu á vindmyllum, nýta þessir framleiðendur þetta efni í vaxandi mæli.

Koltrefjaframleiðsla er hátækniiðnaður og það hefur verið stefna Sveitarfélagsins Skagafjarðar að vera í fararbroddi á Íslandi á sviði trefjaframleiðslu og tengdrar starfsemi.

Koltrefjaverksmiðja þarf ekki mikla orku, 10 til 15 MW en raforkuöryggið þarf að vera til staðar. Verksmiðjan myndi skapa 70 til 80 störf á svæðinu að stærstum hluta vel menntuð störf.“

Margir hafa þá skoðun að verksmiðjur, ekki síst stóriðjur, séu mengandi og slæmar fyrir náttúru og loftslag og má efalaust benda á slíkar á Íslandi. Fellur koltrefjaverksmiðja undir þann flokk að teljast mengandi stóriðja?
„Ég hef hvergi rekist á neinar upplýsingar um að koltrefjaverksmiðja sé mengandi stóriðja, þvert á móti stuðlar framleiðslan að minni mengun. Koltrefjar eru afar létt og sterkt efni sem yrði framleitt með grænni orku og með notkun koltrefja í bílum og flugvélum minnkar mengun umtalsvert vegna léttleika og styrks koltrefjanna og því ljóst að áhrif á náttúru og loftslag er jákvæð.“

Eitthvað sem þú vilt koma á framfæri?
„Ég bind miklar vonir við þetta verkefni, sem er langhlaup og myndi það vera jákvætt og góð viðbót við annars öflugt atvinnulíf í Skagafirði, ef það risi hátækni koltrefjaverksmiðja sem framleiddi koltrefjar úr íslenskri grænni orku.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir