Stór fiskur í lítilli tjörn eða lítill fiskur í stórri tjörn? - Áskorandi Ragnheiður Hlín Símonardóttir, brottfluttur Skagfirðingur

Myndatexti: Heiða ásamt börnum sínum. Í aldursröð eru það Hafdís Gígja, Íris Hanna, Símon Snorri, Daníel Smári og Heiðbjört Harpa. Aðsend mynd.
Myndatexti: Heiða ásamt börnum sínum. Í aldursröð eru það Hafdís Gígja, Íris Hanna, Símon Snorri, Daníel Smári og Heiðbjört Harpa. Aðsend mynd.

Ég vil byrja á að þakka gömlu vinkonu minni, Elísabetu Kjartansdóttur fyrir að hafa trú á mér með pennann - það var fallegt af henni.  Nú eru orðin rúmlega 12 ár síðan ég fluttist burt úr Skagafirði að Kálfafelli í Skaftárhreppi, ásamt manni mínum og þremur börnum. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og börnunum fjölgað um tvö.

Í Skagafirði hafði ég búið meira og minna óslitið í 26 ár, á þaðan ómetanlegar minningar og hlaut gott og ástríkt uppeldi í föður- og móðurhúsum að Ketu í Hegranesi.  Ég hef oft hugsað um hversu dýrmætt það er að eiga góðan auð í því fólki sem maður umgengst - finna að maður er hluti af heild en ekki einn í hinni stóru veröld. Mannauður er jú eitt það besta sem nokkur getur átt.  Að eiga fjölskyldu, vini eða einhvern að sem stendur með þér í gegnum súrt og sætt, einhvern sem þú getur treyst á. Slíkur mannauður er okkur ekki bara mikilvægur og nauðsynlegur í okkar allra nánasta hring, hann er ekki síður mikilvægur í nærumhverfinu  og er í raun dýrmætt djásn hverju samfélagi. Mannauður er auðfinnanlegur og auðsjáanlegur  í litlum samfélögum úti á landi, ekki síst þegar takast þarf á við óvænt og erfið verkefni. 

     Mér er nærtækt að vitna í mitt litla samfélag þó ég viti að þessu sé eins farið á stöðum að svipaðri stærðargráðu. Á Kirkjubæjarklaustri og hér í sveitunum í kring búa ekki nema um 560 manns í sveitarfélagi sem er gríðar víðfermt. Í þessari tölu - sem ekki er ýkja há- eru einstaklingar sem búa hér tímabundið vegna vinnu sinnar og ætla sér ekki að festa hér rætur.  Hér höldum við úti allri þjónustu sem nauðsynleg er í hverjum byggðakjarna: hér er matvöruverslun, heilsugæsla, skóli fyrir alla bekki grunnskólans, heilsuleikskóli, sundlaug, íþróttahús og nokkuð öflug löggæsla svo dæmi séu tekin. Við eigum glæsilegt héraðsbókasafn og eitt heimilislegasta dvalarheimili fyrir aldraða sem ég hef augum litið. Hér er fullt af flottum fyrirtækjum  og einstaklingum sem sinna ýmsum dýrmætum störfum tengdum ferðaþjónustu, landbúnaði, veitingasölu, handverki o.s.frv.  Ekkert af þessu væri til staðar nema vegna fólksins sem hér býr. Fólkið á litlu stöðunum er oft knúið einhverjum ólýsanlegum drifkrafti. Hver einstaklingur verður svo mikilvægur og hver einstaklingur  þarf að vera í svo mörgum hlutverkum  til að litla samfélagið sem hann býr í geti keppt við þau stærri í grunnþáttum og nauðsynlegri uppbyggingu innviða. Orðatiltækið ,, margar hendur vinna létt verk" er vel þekkt, en á litlu og fámennu stöðunum ætti kannski betur við að segja ,,fáar hendur vinna mörg verk".  Á svona stöðum þarf hver einstaklingur að vera svolítið ,,stór fiskur þó tjörnin sé lítil". Það er tæplega í boði að ætla sér að vera ,,lítill fiskur í stórri tjörn".

     Störf sjálfboðaliða eru gríðarlega mikilvæg litlum samfélögum. Björgunarsveitir og slökkvilið á litlu stöðunum eru skipuð fórnfúsu fólki sem er tilbúið að gefa af kröftum sínum og leggja sitt lóð á vogarskálarnar í nafni náungakærleika. Oft reynir mikið á þessa aðila þegar eitthvað kemur uppá - oft meira en almenningur gerir sér grein fyrir. Á þessum minni stöðum úti á landi eru þessir sjálfboðaliðar oft ræstir út með sjúkrabílum, heilbrigðisstarfsfólki og lögreglu vegna þess hversu fáar hendur eru til taks til að takast á við stærri verkefni eins og bílslys og þess háttar. Þannig verða þessir aðilar gríðarlega mikilvæg aðstoð þeirra fagaðila sem koma að slíkum verkefnum. Á stærri stöðum sem hafa fleira fagfólk og meira af öllu, er þessu öðruvísi háttað. Hér þurfum við svo mikið á hvert öðru að halda og enginn einstaklingur ber bara einn hatt. Það er mikið þakkarefni að fá að vera hluti af þessháttar samfélagi, það þroskar mann sem einstakling og gerir mann að betri manneskju fyrir vikið. Einn er maður ósköp lítils megnugur á svo mörgum sviðum en með samvinnu, samkennd og samhug í bland við náungakærleika verður allt svo mikið einfaldara og notalegra. Þannig er það í lífinu.  Þetta er í rauninni ekkert flókið, við þurfum bara öll sem eitt að gera okkur grein fyrir því að við erum öll mikilvæg og þurfum hvers annars við. Eins og hlekkur í keðju. Keðja verður nefnilega ekki keðja nema allir hlekkirnir hangi saman og styðji hver við annan.

Mig langar að skora á hana Ninnu systur mína, Jónínu Hrönn Símonardóttur að taka við pennanum af mér. Hún býr eins og ég í svona litlu krummaskuði (lesist með smá kaldhæðni) og er, eins og ég, alveg að fíla það.  Með góðum kveðjum í fjörðinn minn fagra, hann er alltaf gott að sækja heim.

Áður birst í 5. tbl. Feykis 2019

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir