Styðjum saman við menningarlegt stórvirki

Atorka og frumkvæði þeirra hjónanna á Kringlumýri í Skagafirði, Sigurðar Hansen og Maríu Guðmundsdóttur, við menningarlega uppbyggingu á varla sinn líkan. Við sem erum tíðir gestir á Kringlumýri, undrumst svo sem ekki lengur áræði þeirra og hugmyndaauðgi á þessu sviði. Og núna er verið að stíga enn eitt risaskrefið. -Ég vil með þessum orðum hvetja þá sem þess eiga kost að leggja þessu einstæða verkefni lið.

Hverjum hefði dottið það í hug að breyta aflögðum minkahúsum í sannkallað menningarhús í héraði? – Jú, fjölskyldunni á Kringlumýri.  Kakalaskálinn er fyrir löngu orðinn landsþekktur. Þar fara fram menningarsamkomur af fjölþættasta toga; lærðar alþjóðlegar og innlendar ráðstefnur, viðburðir sem tengjast Sturlungaöldinni, fjölbreyttar samkomur í héraði og áfram má lengi telja.

Haugsnesbardagi,sem átti sér stað 19. apríl 1246  var ein af stórorustum Sturlungaaldar og mannskæðasti bardagi sem háður hefur verið á Íslandi. Bardaginn var, má segja, nánast í túnfætinum á Kringlumýri. Sigurður Hansen fór ásamt félögum sínum, tíndi til meira en þúsund stóra steinhnullunga, flutti um langan veg og stillti upp bardaganum. Og nú eigum við þess kost að fara með Sigurði og hlusta á frásögn hans af þessum einstæða atburði, sem hann tvinnar saman af mikilli list og innlifun við megindrætti Sturlungasögunnar. - Dauður er sá sem ekki hrífst með og gefur sig frásögninni á vald.

En það er eins og þetta sé ekki nóg. Eins og frá hefur verið greint í fjölmiðlum stendur fjölskyldan á Kringlumýri nú fyrir enn einum áfanganum í uppbyggingu á menningarsviðinu. Í framhaldi af Kakalaskálanum er sýningin Á söguslóð Þórðar kakala smám saman að taka á sig mynd. Hún samanstendur af 30 listaverkum og hljóðleiðsögn og sýnir fólk, atburði og staði er tengjast lífi Þórðar kakala einum höfðingja Sturlungaaldar og sem Kakalaskálinn er kenndur við. Stefnt er að því að sýningin verði opnuð nú á komandi sumri og er það sannarlega mikið tilhlökkunarefni.

Þetta er kostnaðarsamt risaverkefni, sem aldrei hefði orðið að veruleika, ef ekki hefði komið til frumkvæði Sigurðar og fjölskyldu hans, sem hafa bæði lagt fram ómælda vinnu og fjármuni. Svo vel vill til að okkur öðrum gefst núna kostur á því að styðja við þetta verkefni með frjálsum framlögum í gegn um Karolina fund, sem er fyrirkomulag við fjáröflun sem fyrir löngu er orðið þekkt við fjármögnun menningarverkefna og góðgerðarmála svo dæmi séu tekin. Kosturinn við þessa aðferð er meðal annars sá að hver getur lagt fram stuðning eftir efnum sínum og aðstæðum.

Sjá krækju inn á Karolina fund: https://www.karolinafund.com/project/view/2387?fbclid=IwAR3ZtQoOnfoDdKZ-yli-jjwJsqEHVj5agUsJd5IPNVx76LwRC6b14FRE9tU

Ég vil með þessum orðum hvetja þá sem þess eiga kost að leggja þessu stórmerkilega framtaki lið. Með því móti getum við stutt við einstæða menningaruppbyggingu sem verður óbrotgjarn leiðarsteinn um það ótrúlega tímabil í sögu þjóðarinnar sem kennd er við Sturlungu.

Einar Kristinn Guðfinnsson. Höfundur er félagi í Gangnamannafélagi Austurdals.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir