Styrkur skiptir máli

Á tíma okkar sem þingmenn NV-kjördæmis hefur verið ánægjulegt að eiga samstarf við alla sveitarstjórnarmenn í Húnaþingi vestra. Samhugur, samtakamáttur og öflug málafylgja eru orð sem koma í hugann. Það hafa líka náðst fram stór og mikil framfaramál og sveitarfélagið verið í fararbroddi margra metnaðarfullra verkefna. Til að bæta búsetuskilyrði og efla mannlíf. Mörg verkefni hafa náð fram, en okkur eru vafalaust líka ofarlega í huga verkefnin sem blasa við og hafa ekki náð fram, eins og við helst vildum.

Magnús Magnússon og Sigríður Ólafsdóttir hafa sannarlega látið muna um sig í baráttu og málafylgju fyrir Húnaþing vestra. Þau hafa líka, með afgerandi og eftirtektarverðum hætti, tekið af heilum hug þátt í starfi Sjálfstæðisflokksins og verið okkur þingmönnum þar dýrmætur og mikilvægur liðsauki. Til þeirra höfum við oft leitað og sótt okkur liðsmenn. Þau hafa að sama skapi haldið okkur sem þingmönnum við efnið. En alltaf verið uppbyggileg, en samt þung í sókn sinni. Við drögum ekki fjöður yfir það.

Í kjölfar óveðurs og dæmalausra aðstæðna skipti framganga sveitarstjórnar og sveitarstjóra miklu máli. Enda voru viðbrögðin við afleiðingum óveðursins, af hendi ríkisstjórnarinnar, fordæmalaus og mörkuðu nýja nálgun. Þar sem stjórnarráðið vann, þvert á öll ráðuneyti að endurbótaáætlun.

Það sem minna hefur farið fyrir er að segja frá því að þau viðbrögð voru ekki síst vegna þess að mörg hagsmunamál höfðu einmitt sveitarstjórnarmenn í Húnaþingi vestra sett á dagskrá. Sem dæmi var þrífösunaráætlun tilbúin og því hægt að hrinda henni í framkvæmd. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, þáverandi ráðherra orkumála, hafði fengið skýr skilaboð fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í sveitarstjórn Húnaþings vestra og lagt í mikilvægan undirbúning.

Af eldri málum mætti vel nefna að vegna baráttu sjálfstæðismanna í Húnaþingi vestra var lögum um endurgreiðslur vegna lagningu hitaveitu breytt, sem gerði mögulegt að ráðast í þýðingarmikla hitaveituvæðingu. Það leiddu sjálfstæðismenn fram í atvinnuveganefnd Alþingis á kjörtímabilinu 2013-2016. Ekki síst vegna baráttu Jóns Gunnarssonar, sem þekkti öðrum fremur mikilvægi slíkra framkvæmda fyrir Húnaþing vestra.

Ljósleiðaravæðing sveitanna er eitt af þessum framfaramálum og höfum við Þórdís Kolbrún, nú sem ráðherra utanríkismála, snúið bökum saman til að ná næsta áfanga í að skapa aðstæður á fjarskiptamarkaði til að fjarskiptafyrirtækin sjálf komi að öflugum nettengingum innan þéttbýlisstaða, eins og á Hvammstanga og Laugabakka.

Innan fárra daga, verður opnað samkeppnisútboð um aðgengi að stofntenginu um land allt til að efla samkeppni á því sviði. Þar skiptir höfuðmáli að núverandi utanríkisráðherra og forveri hennar, hafa lagt áherslu á að nýta ljósleiðaraþræði í eigu Atlandshafsbandalagsins með eflingu byggðar um land allt í huga. Við eflum samkeppni til að tengja fólk um land allt.

Magnús Magnússon á skuldlaust áfanga og árangur í baráttu um endurbætur á tengivegum. Hann tók þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins til að koma rækilega á dagskrá framförum í innviðamálum dreifðra byggða. Ekki til að koma sjálfum sér á framfæri, heldur til að halda öðrum frambjóðendum á tánum, láta þá taka á sig sömu baráttu.

Árangur hans var að alla leið í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar er átak í endurbótum tengivega sem sérstakt verkefni kjörtímabilsins. Í fjármálaáætlun þeirri sem nú er til umfjöllunar á Alþingi er aukið fjármagn til tengivega á næstu fimm árum.

En betur má ef duga skal. Tannhjól stjórnmálanna er fyrst og fremst þátttaka og barátta. Þannig einfaldlega virka þau. Eftir því sem styrkurinn heima fyrir er meiri, snúa tannhjólin stærri hlutum áfram. Húnaþing vestra þarf sterkt baráttufólk. Það fólk eigum við á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Húnaþingi vestra undir styrkri forustu oddvitans Magnúsar Magnússonar.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir þm NV kjördæmis og varaformaður Sjálfstæðisflokksins
Haraldur Benediktsson þm NV kjördæmis.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir