Takkaskórnir of gamlir og rykugir fyrir Pepsi Max - Liðið mitt Hrafnhildur Guðnadóttir

Mikil íþróttafjölskylda, Rabbý, ein af bestu leikmönnum Stólanna í fótbolta og kapteininn í körfuboltaliði Tindastóls Helgi Rafn Viggósson. Afleggjararnir eiga eflaust eftir að gera góða hluti hjá Stólunum í framtíðinni. Aðsend mynd.
Mikil íþróttafjölskylda, Rabbý, ein af bestu leikmönnum Stólanna í fótbolta og kapteininn í körfuboltaliði Tindastóls Helgi Rafn Viggósson. Afleggjararnir eiga eflaust eftir að gera góða hluti hjá Stólunum í framtíðinni. Aðsend mynd.

Hrafnhildur Guðnadóttir, eða Rabbý eins og hún er ævinlega kölluð, hefur reynt ýmislegt á knattspyrnuvellinum. Barnsskónum sleit hún á Siglufirði og sparkaði fótbolta í gríð og erg fyrir KS í yngri flokkum en aðeins 16 ára gömul var hún farin að leika í efstu deild með sameiginlegu liði Þórs Ak., KA og KS áður en hún kom á Krókinn og lék með Stólum nokkur tímabil þar til hún munstraði sig árið 2009 í Pepsi-deildarlið KR. Þar lék hún sjö leiki og skoraði eitt mark. Ferilinn endaði hún svo í liði Tindastóls árið 2011, þá búinn að leika 96 leiki með þessum þremur liðum. Það er því ekkert undarlegt að hún hafi fengið spurningu í síðasta þætti hvort hún ætli að taka þátt í Pepsi Max ævintýri Tindastóls þetta tímabilið. Rabbý býr á Sauðárkróki og starfar sem hársnyrtir.

Hvert er uppáhalds liðið þitt í enska boltanum? -Liverpool. Þegar ég byrjaði að fylgjast með fótbolta þá var Robbie Fowler alveg frábær og þess vegna varð Liverpool fyrir valinu.

Hvernig spáir þú gengi liðsins á tímabilinu? -Liverpool tekur titilinn annað árið í röð!

Ertu sátt við stöðu liðsins í dag? -Já já, ágætlega sátt, það eru reyndar búin að vera alltof mörg jafntefli í leikjum sem þeir eiga að vinna. Svo er nú búið að vera ansi mikið um meiðsli í liðinu en vonandi fer þetta að lagast og þeir klára seinni hluta tímabilsins með stæl!

Hefur þú einhvern tímann lent í deilum vegna aðdáunar þinnar á umræddu liði? -Nei nei, það halda nú flestir í kringum mig með réttu liði, nema það að ég hef stundum þurft að ræða mjög alvarlega við son minn.

Hver er uppáhaldsleikmaðurinn fyrr og síðar? -Verð auðvitað að nefna Robbie Fowler (enda áhrifavaldur í mínu lífi:).. en svo er það líka Messi.

Hefur þú farið á leik með liðinu þínu? -Nei ekki ennþá. Ég fór til Barcelona 2015 að sjá hitt uppáhaldsliðið mitt spila og það var geggjað en ég stefni klárlega á að fara á Anfield næst.

Áttu einhvern hlut sem tengist liðinu? -Bara eitthvað smádót, trefil og könnu.

Hvernig gengur að ala aðra fjölskyldumeðlimi upp í stuðningi við liðið? -Sem betur fer hélt Helgi Rafn með Liverpool þegar við kynntumst svo uppeldið á börnunum átti að verða mjög auðvelt. En það hefur nú ekki alveg verið þannig því sá elsti er búinn að vera með vesen og þykist halda með einhverju öðru liði, miðjan okkar er Poolari og sá yngsti lofar góðu.

Hefur þú einhvern tímann skipt um uppáhalds félag? -Nei, Liverpool verður alltaf liðið mitt. En mér finnst reyndar gaman að fylgjast með Wolves spila og held alltaf pínu með þeim.

Uppáhalds málsháttur? -Sér grefur gröf þótt grafi.

Einhver góð saga úr boltanum? -Þegar ég var 16 ára bjó ég á Sigló en var að spila með m.fl. Þórs á Akureyri og þurfti að mæta á æfingar þar þrisvar í viku og svo auðvitað leikir í hverri viku líka. Til að láta þetta ganga upp þá fékk ég mér vinnu í Rækjunni og tók bara næturvaktir allt sumarið. Við vorum fjórar stelpur frá Sigló sem spiluðum með Þór og fengum Yaris til að ferðast á saman. Þetta sumar er mjög eftirminnilegt og eitt af því skemmtilegasta.

En svo verð ég að nefna að öll keppnisferðalögin sem maður hefur farið í með liðsfélögum voru jafn mikilvæg og skemmtileg eins og fótboltinn sjálfur.

Einhver góður hrekkur sem þú hefur framkvæmt eða orðið fyrir? -Nei nei, ekkert sem mér dettur í hug til að segja frá.

Spurning frá Konna Sigga Donna: -Ætlar þú að taka fram takkaskóna núna? Vera með í Pepsi Max ævintýrinu?

Svar: -Það væri reyndar geggjað!.. en ég held að takkaskórnir mínir séu orðnir of gamlir og rykugir fyrir Pepsi Max.

Hvern myndir þú vilja sjá svara þessum spurningum? -Halldór Halldórsson

Hvaða spurningu viltu lauma að viðkomandi? -Er stefnan að horfa á næsta HM í fótbolta í Drangey?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir