Það er ekkert að óttast

Okkur hefur aldrei skort úrtöluraddir í þorpunum. Það er sífellt verið að segja okkur að þetta og hitt sé ekki hægt. Allt nýtt og ferskt sé ýmist ógerlegt eða of flókið. Vegurinn framundan torsóttur.

Ef þessar raddir hefðu á einhverjum tímapunkti bitið á okkur þá væru þorpin ekki til. Ef við hefðum látið úrtöluraddir berja úr okkur trúna þá værum við fyrir löngu lögst á bakið. Það hefur samt aldrei hvarflað að nokkrum manni.

Ég er í framboði til Alþingis vegna þess að ég trúi á samfélögin í Norðvesturkjördæmi. Ég trúi því staðfastlega að við getum snúið vörn í sókn. Nært þorpin og gripið tækifærin. Erindið er ekki flóknara en svo. Ég vil vinna að uppbyggingu samfélaganna sem ólu mig af sér. Ég skulda þeim það og þar liggur mín ástríða.

Krónan

Ég er í Viðreisn vegna þess að við viljum festa gengi krónunnar við evru. Til að lækka vexti og matvælaverð. Aftengja sveiflurnar sem keyra okkur sífellt út í árbakkana. Nýta frekar afrakstur eigin svita til að efla þjónustu. Um allt land. Rjúfa þannig kyrrstöðu og leiðrétta uppsafnaða skuld ríkisins. En okkur er sagt að þetta sé ekki hægt. Eins og alltaf. Þannig virka úrtöluraddir. En svo ganga þær yfir. Eins og hverjar aðrar haustlægðir.

Sjávarútvegurinn

Ég er í Viðreisn vegna þess að við viljum skapa sátt um sjávarútveginn. Endurheimta hlut okkar allra. Nýta afraksturinn til að styrkja þorpin sem hýsa réttmæta eigendur auðlindanna. Efla aftur svæði sem hafa verið hlunnfarin. Okkur hefur líka verið sagt að það sé ekki hægt. Að slíkar sættir muni steypa okkur til glötunar. Látið það sem vind um eyrun þjóta. Þeir sem þekkja þorpin sjá í gegnum mugguna. Óttinn er ástæðulaus.

Heilbrigðisþjónustan

Ég er í Viðreisn vegna þess að við viljum endurreisa svelt heilbrigðiskerfi. Stytta biðlista, bæta þjónustu og niðurgreiða sálfræðiþjónustu. Okkur hefur nú aldeilis verið sagt að það sé ekki hægt. Staðreyndin er hins vegar sú að við getum vel tryggt heilsu okkar og öryggi. Við þurfum bara að hafa kjark til að hugsa út fyrir pólitísk hólf og ráðast að rótinni. Einblína á tilgang kerfisins og huga að þjónustunni. Varla þurfum við að hræðast það.

Umhverfið

Ég er í Viðreisn vegna þess að við viljum rífa Ísland upp úr meðalmennsku í loftslagsmálum. Byggja framtíð okkar á hreinni orku um allt land og taka stærri skref. Það er víst hægt. Við þurfum bara að vera kjörkuð. Ákvarðanafælni er ekki í boði.

Þegar öllu er á botninn hvolft

Ég er í framboði fyrir Viðreisn vegna þess að ég hafna því að kyrrstaða landsbyggðanna sé náttúrulögmál. Vegna þess að ég trúi því einlæglega að við stöndum á krossgötum. Annað hvort grípum við tækifærin strax eða látum þau renna okkur úr greipum. Ég er í framboði vegna þess að ég vel fyrri kostinn. Og ég er í Viðreisn vegna þess að ég trúi því að þar blundi nauðsynlegur kraftur til að kynda aftur eldinn sem kraumar undir niðri. Án ótta við breytingar.

En þegar öllu er á botninn hvolft þá snýst þetta ekki um mig. Þið ráðið ferðinni. Ef þið veðjið á þorpin þá er ég tilbúinn til að ráðast í verkefnin með ykkur. Af heilum hug.

Gleðilega Viðreisn.

Guðmundur Gunnarsson
Oddviti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir