Það er komið að sundlauginni á Sauðárkróki

Það er kominn tími til að taka af skarið og hefjast handa við enduruppbyggingu sundlaugar Sauðárkróks á núverandi stað í hjarta bæjarins, ásamt leik- og útisvæði með heitum pottum, vaðlaugum, rennibrautum og öðrum leiktækjum. Litla vatnaveröld þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi, hvort heldur er til leikja og samveru fjölskyldunnar,sundæfinga, eða slökunar og endurhæfingar (greinin birtist áður í fréttablaðinu Feyki 6. mars síðastliðinn).

Uppbygging á núverandi sundlaugarsvæði næsta verkefni

Þegar sundlauginn á Sauðárkróki var byggð á sínum tíma var hún með glæsilegri íþróttamannvirkjum á landinu. Að þeirri framkvæmd stóð dugmikið fólk með Guðjón Ingimundarson í broddi fylkingar. Sannarlega hefur hún dugað vel og staðsetningin og byggingin falleg þó hún þarfnist viðhalds við, en það er fyrir löngu kominn tími til að halda áfram þar sem frá var horfið, ráðast í endurbætur og byggja upp sundlaugarsvæðið þannig að það þjóni sem best óskum íbúa og gesta í dag, með bættu aðgengi og fjölbreyttari notkunarmöguleikum.

Lengi hefur verið rætt um framtíð sundlaugarinnar á Sauðárkróki, hvort bæri að gera hana upp og byggja við eða byggja nýja sundlaug á öðrum stað og þá eins hvernig gera ætti nýtt sundlaugarsvæði úr garði. Skortur á að lokið hafi verið stefnumörkun af þessu tagi hefur tafið fyrir ákvarðanatöku og þrátt fyrir að sundlaugin hafi í hartnær tvo áratugi verið skilgreind sem forgangsverkefni í nýframkvæmdum hjá sveitarfélaginu, hafa á þeim tíma önnur verkefni ávallt lent framar í röðinni þegar til á að taka. Málefni sundlaugarinnar hafa þó alloft verið rædd á undanförnum árum og valkostir verið til skoðunar. Til að mynda skilaði starfshópur af sér ágætri skýrslu um uppbyggingu sundlaugar á Sauðárkróki í upphafi árs 2005. Niðurstaða þeirrar vinnu var að mæla með núverandi staðsetningu. Framkvæmdir við sundlaugarsvæðið ættu ekki einungis að vera næsta framkvæmd við íþróttamannvirki á Sauðárkróki heldur jafnframt næsta stóra verkefni sveitarfélagsins á Króknum.

Gert ráð fyrir undirbúningsvinnu í fjárhagsáætlun 2014

Í fjárhagsáætlun ársins 2014 er gert ráð fyrir 5 milljónum króna til að hefja undirbúning að uppbyggingu sundlaugarsvæðisins, með hugmynda og hönnunarvinnu, sem er undanfari þess að hægt sé að hefjast handa (kemur sú upphæð til viðbótar þeim 11,4 milljónum sem ætlaðar eru í ýmist viðhald og smærri umbætur eins og upphitun stétta ofl.). Auk þess að vinna með fyrirliggjandi tillögur væri vel til fundið að óska eftir frekari tillögum sem byggðust á uppbyggingu núverandi sundlaugarsvæðis og jafnvel að efna til samkeppni um bestu útfærsluna. Mikilvægt væri að haga verkefninu þannig að hægt verði að hefja framkvæmdir þegar á næsta ári. Okkur er ekkert að vanbúnaði að setja þessa framkvæmd á dagskrá og í ljósi stórbættrar rekstrarafkomu sveitarfélagsins Skagafjarðar, að ljúka henni með myndarbrag á skömmum tíma.

Það er ekki eftir neinu að bíða

Það er kominn tími til að taka af skarið og hefjast handa við enduruppbyggingu sundlaugar Sauðárkróks á núverandi stað í hjarta bæjarins, ásamt leik- og útisvæði með heitum pottum, vaðlaugum, rennibrautum og öðrum leiktækjum. Litla vatnaveröld þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi, hvort heldur er til leikja og samveru fjölskyldunnar,sundæfinga, eða slökunar og endurhæfingar.

Greinin hér að ofan birtist fyrst í prentmiðlinum Feyki í vetur. Fleiri framboð hafa nú tekið undir hugmyndir okkar um enduruppbyggingu Sundlaugarinnar á Sauðárkróki og er það fagnaðarefni. það þarf hinsvegar að láta verkin tala, um það munum við hafa forystu.

Bjarni Jónsson
Skipar 1. sæti á lista VG og óháðra í Skagafirði

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir