Skörungur í sögu verkalýðsbaráttunnar | Álfhildur Leifsdóttir skrifar

Álfhildur Leifsdóttir. MYND gg
Álfhildur Leifsdóttir. MYND gg

1.maí hefur löngum verið dagur samstöðu, baráttu og vonar. Þetta er dagur verkalýðsins sem hefur lengi barist fyrir betri kjörum, styttri vinnudegi, mannsæmandi launum og auknu öryggi á vinnustöðum. En þessi dagur er líka áminning um að baráttan er ekki búin, hún heldur áfram í nýjum myndum, með nýjum áskorunum og nú á Kvennaári 2025 hefur hún aldrei verið mikilvægari.

Saga verkalýðsbaráttunnar er óaðskiljanleg sögu kvennabaráttunnar. Konur hafa staðið í framlínu krafna um jafnrétti og réttlát laun og hafa sannarlega áorkað miklu. Kynbundinn launamunur hefur minnkað, réttindi kvenna á vinnumarkaði hafa aukist og vitundarvakning um mikilvægi fjölbreytni og jöfnuðar er orðin mun rótgrónari en áður. Við höfum í dag lög og reglur sem verja réttindi kvenna og minnihlutahópa og í mörgum löndum er hávær krafa um jafnara samfélag, þar er litið til Íslands sem fyrirmyndar. Þetta eru árangur áratuga baráttu.

Þó má ekki líta undan þeim bakslögum sem eiga sér nú stað. Í Bandaríkjunum höfum við séð grundvallarréttindi kvenna, svo sem réttinn til þungunarrofs, vera skert. Í Bretlandi hefur verkalýðsbaráttan veikst í skjóli aðhaldsstefnu stjórnvalda og minnihlutahópar kvenna, innflytjenda og hinsegin fólks, standa frammi fyrir vaxandi misrétti og aðkasti. Þessi þróun minnir okkur á að árangur er aldrei sjálfgefinn og réttindi sem hafa áunnist geta horfið snarlega ef við sofunum á verðinum.

Á þessum degi er vert að rifja upp konur sem ruddu brautir án tilkalls til frægðar eða titla. Ein þeirra var Sigurlaug Gunnarsdóttir frá Ási í Skagafirði, fædd 1828. Hún var alþýðukona, bóndi, ljósmóðir, kennari, frumkvöðull og reyndar líka langalanga amma mín. Í sveitinni þar sem fáar konur höfðu tækifæri til menntunar á þeim tíma, stofnaði hún fyrsta kvenfélag landsins á heimili sínu í Ási árið 1869 og lagði þannig grunn að Kvennaskólanum í Skagafirði, sem síðar varð hluti af menntasögu Íslands. Hún tók á móti fyrstu saumavélinni, fyrstu prjónavélinni og fyrstu eldavélinni í héraðinu og nýtti tæknina til að efla heimilin og samfélagið. Hún saumaði fyrsta skautbúning landsins og mótaði þannig íslenskan menningararf. Kvenfélög spruttu í kjölfarið upp víða um landið og hafa æ síðan verið mikilvægar stoðir í nærumhverfi hvers samfélags en um leið hafa þau elft samstöðu kvenna.

Í anda 1. maí þar sem við krefjumst jafnréttis, mannsæmandi vinnuaðstæðna og samfélagslegra umbóta, minnumst við kvenna eins og Sigurlaugar, skagfirskrar alþýðukonu sem með verkum sínum barðist fyrir velferð, menntun og jöfnuði. Hennar arfleifð er sönnun þess að baráttan fyrir bættum kjörum og frelsi til framtaks hefur djúpar rætur í íslensku samfélagi, jafnvel áður en til skipulagðrar verkalýðsbaráttu kom. Hún var skörungur í upphafi sögu verkalýðsbaráttunnar.

Til hamingju með daginn öll!

Álfhildur Leifsdóttir
Oddviti VG og óháðra Skagafirði

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir