Þess vegna þurfum við menningahús!

Forsaga hugmynda um menningarhús á Sauðárkróki er að árið 2005 undirrituðu Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þáverandi menntamálaráðherra, Gísli Gunnarsson, þáverandi forseti sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Agnar H. Gunnarsson, oddviti Akrahrepps, samkomulag um uppbyggingu menningarhúss í Skagafirði. Grundvöllur þessa samkomulags var ákvörðun ríkisstjórnar Íslands frá árinu 1999 um að veita stofnstyrki til uppbyggingar menningarhúsa utan höfuðborgarsvæðisins með það að markmiði að bæta þar aðstöðu til menningar- og listastarfsemi.

Samkomulagið var byggt á niðurstöðum samstarfshóps skipuðum fulltrúum mennta-málaráðuneytis og sveitarfélaganna í Skagafirði. Annars vegar var gerð tillaga um endurbætur á félagsheimilinu Miðgarði, þar sem áhersla yrði lögð á tónlistarflutning, stærri hátíðir og ráðstefnuhald. Var endurbætt hús, Menningarhúsið Miðgarður, formlega vígt við upphaf Sæluviku Skagfirðinga í apríl 2009. Hins vegar var gerð tillaga um að byggt yrði við núverandi Safnahús Skagfirðinga á Sauðárkróki og að þar verði menningarmiðstöð með áherslu á fræðastörf og sýningar, húsið skyldi hýsa sviðslistasal, sýningasal, bókasafn, skjalasafn og listasafn. Árið 2009 kom ósk frá mennta og menningarmálaráðuneytinu um að vegna efnahagserfiðleika yrði öllum undirbúningi og framkvæmdum þessa síðari áfanga slegið á frest um nokkurra ára skeið.

Það var síðan í tíð Illuga Gunnarssonar sem mennta og menningarmálaráðherra sem málið var tekið upp aftur og í desember 2016 sem skipaðir eru tveir fulltrúar ráðuneytisins og óskað eftir skipun fulltrúa frá sveitafélaginu Skagafriði sem skipaðir voru í janúar 2017.

Síðan þá hefur málið verið í vinnslu og oft hefur þótt hægt ganga að koma verkefninu á framkvæmdastig en nú er verkefnið loks að komast á það stig að hægt sé að fara í hönnunarsamkeppni og í framhaldinu framkvæmdir.

Í vinnu við þarfagreiningu var leitað til hagsmunaaðila í listalífi Skagfirðinga, nokkur helstu atriði sem þarfagreining leiddi í ljós eru:

  1. Sviðslistasalur taki um 180–200 manns í sæti sem væri tvöföldun á því sem Bifröst tekur í dag. Gert er ráð fyrir hallandi sal.
  2. Kröfur til sviðs gera ráð fyrir að þar sé hátt til lofts og þokkalega vítt til veggja, hringsvið sé innbyggt í meginsvið og jafnframt sé gert ráð fyrir hliðarsviði. Sviðsop má ekki vera of stórt.
  3. Leikfélagið þarf aðstöðu fyrir leikara á meðan á sýningum stendur, svo sem búningsherbergi, smink og setustofu en einnig langtímageymslu fyrir leikmuni og einhvers konar smíðaverkstæði/saumastofu.
  4. Gerður verði fjölnotasalur þar sem hýsa má listsýningar af ýmsu tagi og einnig ýmsa annarskonar viðburði.
  5. Aðstaða Bókasafns verði með þeim hætti að auk útlánasals verði hugað að vinnurými starfsmanna og lessal.
  6. Skjalasafnið þarf því vinnurými fyrir sjö auk aðstöðu fyrir gesti. Byggðasafnið þarf skrifstofurými fyrir tvo til þrjá Auk þess þurfi bæði þessi söfn rými til að hreinsa og mynda gögn og muni en von er til þess að söfnin geti samnýtt þessa aðstöðu. Hjá Sögufélaginu/Byggðasögunni starfa að jafnaði tveir til þrír starfsmenn í dag. Horft er á fyrstu hæð núverandi húss sem vinnuaðstöðu fyrir söfnin.
  7. Varðveislurýmið. Nokkur hluti menningarhússins er hugsaður sem varðveislurými en hér er verið að koma til móts við þörf safnanna og uppfylla kröfur ríkisins um aðbúnað opinberra safna og byggðasafna eins og kemur fram í lögum og reglugerðum.

Öllum er ljóst að aðstaða Leikfélags Sauðárkróks eins elsta áhugamannaleikfélags landsins er ekki ásættanleg, aðstaða til listasýninga er nánast engin og einnig er þröngt um söfnin okkar og það fræðastarf sem þar er unnið, úr þessu þarf að bæta og augljósa svarið er byggjum menningarhús við Safnahúsið á Sauðárkróki og sköpum sögu og menning okkar Skagfirðinga góða aðstöðu til þess að vaxa og dafna. Að þessu hefur Sjálfstæðisflokkurinn unnið á undanförnum árum og nú er það mál komið í höfn, því ber að fagna.

Gunnsteinn Björnsson
Formaður atvinnu-, menningar- og kynningarnefndar

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir