Til þess eru vítin að varast þau

Í foreldrahúsum var því iðulega haldið til haga að siðir, venjur og reglur væru mannanna verk og þeim væri hægt að breyta. Það tók mig smá tíma að átta mig almennilega á inntakinu. Þetta gildir í báðar áttir. Mannanna verk eru ekki öll af hinu góða og það sama á við um breytingar. Þrátt fyrir góðan hug og göfug markmið fer ósjaldan eitthvað úrskeiðis þegar skipt er um kúrs.

Ríkinu er sérstaklega oft mislagðar hendur þegar skipt er út gildum lögum fyrir eitthvað alveg nýtt. Ekki rífa niður girðingu nema vita hvaða tilgangi hún þjónaði er haft að orði í sveitinni. Ríkinu er oftar en ekki slétt sama og virðist einungis kunna það sem er í eðli þess – að auka umsvif sín og miðstýringu. Frumvarp umhverfisráðherra um hálendisþjóðgarð er nýjasta dæmið. En þau eru fleiri dæmin af sama meiði og ástæða til að rifja aðeins upp söguna.

Þjóðlendur
Með setningu þjóðlendulaga tók ríkið það sem það átti ekki með valdboði. Fáir virðast hafa áttað sig fyllilega á þýðingu þess og hvað tæki við fyrr en um seinan.
En til að sanngirnis sé gætt þá var hinn góði ásetningur ríkisstjórnarinnar undir forystu Sjálfstæðisflokksins með þjóðlendulögum sá að eyða óvissu og kveða niður deilur um óljós landamerki. Rétt þótti að færa það sem enginn átti til eignar ríkisins og komið var á fót sérstakri stjórnsýslunefnd til að gæta að réttindum borgaranna og gera málsmeðferðina hraða og skilvirka.

En það gleymdist að allir áttu jafnan rétt í almenningi og engin þörf var á eignarnámi ríkisins til að setja niður deilur um landamerki. Með frumvarpi um hálendisþjóðgarð á svo að reka endahnútinn á ríkisvæðingu hálendisins og allt skal bannað nema það sé sérstaklega heimilað eins og för almennings um svæðið.

Nú rúmum tuttugu árum seinna stendur ríkið enn í stappi við bændur, landeigendur og sveitarfélög um þjóðlendumörk. Frá fyrsta degi eftir setningu laganna sá ríkið sér leik á borði og setti fram ýtrustu kröfur og gott betur um mörk þjóðlendna. Allt í einu var stærð þjóðlendna að sérstöku markmiði. Engum hlíft og engu eirt í nafni jafnræðis. Allur vafi vegna skorts á nákvæmum eignarheimildum skyldi falla ríkinu í vil og skipti engum togum þótt bent væri á að hér fyrr á tímum töldu menn ekki ástæðu til að skrifa niður á dýran pappír það sem augljóst var og á allra vitorði. Dæmi eru meira að segja um að ríkið hafi véfengt eignarheimildarskjöl útgefnum af ríkinu sjálfu.

Ríkið hefur heldur ekki látið staðar numið við úrskurði Óbyggðanefndar. Öllum úrskurðum ríkinu í óhag hefur að jafnaði verið skotið til dómstóla þrátt fyrir að ríkið hafi í raun lögum samkvæmt þá einu hagsmuni undir að eyða óvissu um mörk þjóðlendna. Framan af þurftu landeigendur sem reyndu að standa í hárinu á ríkinu og verja sína hagsmuni að bera sjálfir kostnað af rekstri dómsmálanna. En enginn er ósár eftir viðureign við ríkisvaldið þegar það sýnir sitt rétta andlit.

Þetta er ekki falleg saga og ábyrgð Sjálfstæðisflokksins er mikil. Það er hrein óskhyggja að halda að stjórn og yfirráð ríkisins yfir hálendisþjóðgarði verði einungis í formi duglegs þjóðgarðsvarðar að leiðbeina fólki og aðstoða.

Haf- og strandsvæði
Mikið vill meira. Markmið nýrra laga um skipulag haf- og strandsvæða eru góð og gild og fátt meira jákvætt um þau lög að segja. Alþingismenn féllu strax á prófinu þegar réttur sveitarfélaga til sjálfsstjórnar var kastað út á hafsauga og allt skipulagsvald yfir öllu strandsvæði landsins var fært í hendur ríkisins. Reyndar væri réttara að segja fært í hendur ríkisins í ríkinu, Skipulagsstofnunar. 

Lögum samkvæmt skal Skipulagsstofnun vera ráðherra til aðstoðar og svæðisráð bera ábyrgð á gerð strandsvæðisskipulags. En svo segir í lögunum að Skipulagsstofnun hafi eftirlit með framkvæmd laganna og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim. Þá er stofnunin svæðisráðum til ráðgjafar og annast gerð strandsvæðisskipulags í þeirra umboði og þá málsmeðferð sem lögin kveða á um en að auki skal Skipulagsstofnun fylgjast með þróun í starfsemi og öðrum athöfnun sem áhrif hafa á skipulagsmál haf- og strandsvæða og gera tillögu um stefnu um skipulag haf- og strandsvæða.

Með öðrum orðum er ein ríkisstofnun með alla þræði málsins á sinni hendi ásamt því að hafa eftirlit með sjálfri sér. 

Hvernig svo sem á málið er horft hefði verið skynsamlegra að byggja löggjöfina á þeim grunni sem fyrir var. Sveitarfélög fara almennt með skipulagsvaldið á sínu svæði og Skipulagsstofnun er falið ákveðið eftirlits- og samræmingarhlutverk. Borðliggjandi hefði verið að útvíkka einfaldlega skipulagssvæði sveitarfélaga tvo eða þrjá kílómetra út frá netlögum og tryggja þannig áfram eðlilega valddreifingu og ákvörðunarrétt íbúa á sínu svæði.

En þess í stað er sveitarfélögum nú boðið að sitja í svæðisráði sem að öðru leyti er skipað fulltrúum fjögurra ráðuneyta svona til að ríkið geti hlustað eftir þeirra ábendingum. Hún verður ekki betur útfærð miðstýringin en þetta.

Engu gleymt og ekkert lært
Ferilskrá ríkisins í þessum tveimur málum sem og mörgum öðrum er áminning um að ríkið ásælist sífellt meiri áhrif og deilir ekki völdum sínum. Frumvarp um hálendisþjóðgarð er hreinræktuð afurð þeirrar óheillaþróunar. Mikill meirihluti þjóðarinnar eru hlynntur verndun miðhálendisins í einhverju formi en samt tókst umhverfisráðherra ekki að halda aftur af sér og nýta þann meðbyr máli sínu til framdráttar.

Áform um stóraukna miðstýringu og ríkisafskipti á svæði sem áður var almenningur er ekki boðleg lausn né líkleg til árangurs. Ríkisstjórn og Alþingi verða að staldra við, hlusta og taka mark á málefnalegri gagnrýni á frumvarpið og skiljanlegum efasemdum fólks um ágæti þess. Ella eru líkur á að þjóðgarðsmálið verði enn eitt vítið til að varast.

Teitur Björn Einarsson
Höfundur er 1. varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir