Tímarnir breytast:: Áskorandapenninn Hrafnhildur Valgarðsdóttir, brottfluttur Skagfirðingur

Hvað er heim? Ég hef nú flutt oftar en einu sinni og oftar en tvisvar og alltaf er ég að fara heim. Þeir eru samt sterkir hnútarnir sem æskustöðvarnar hnýta. Heim hefur líka alltaf verið í Fjörðinn fagra, Skagafjörðinn. Þar eru ræturnar, fjölskyldan, æskuvinirnir og minningarnar.

Ég hef verið einstaklega heppin, æskan og unglingsárin eru bara gleði í minningunni. Áföllin bönkuðu þó upp á hjá mér líkt og öðrum bæði sem barn og unglingur en ég hef lært að dvelja ekki lengi við leiðindi og erfiðleika heldur einblína á gleðina. Þessi áföll hafa bara mótað mig og gert mig að þeirri manneskju sem ég er í dag. Minningin um æskuna einkennist af leik og gleði.  Ég ólst upp í stórum systkinahóp og á sumrin fylltust herbergi hússins af sumardvalarbörnum. Þá var leikið langt fram eftir kvöldi, alltaf gott veður OG við fengum kvöldkaffi. Mamma mín var dugleg að baka ofan í okkur. Þegar vetur gekk í garð breyttist leikurinn en áfram var leikið úti. Í minningunni var alltaf snjór á veturna og þá var einnig farið á skauta á vatninu heima í Ási.

Við vorum ekki mörg í barnaskólanum í Nesinu en þar var okkur skipt í yngri og eldri deild. Um fermingaraldurinn fórum við í Gangfræðaskólann á Króknum. Úff, það voru viðbrigði og fjöldinn í skólanum mikill en þar byrjaði fjörið. Þar kynntist ég krökkum sem enn í dag eru mínir dýrmætustu ferðafélagar í lífinu. Bekkjarfélögum mínum tengdist ég tryggðarböndum sem vara, að ég held, til eilífðar og mér þykir mikið vænt um þann hóp. Við höldum enn sambandi og höfum verið mjög dugleg að hittast, enda með eindæmum skemmtilegt fólk.

Oft er sagt að tímarnir breytist og mennirnir með. Tímarnir hafa svo sannarlega breyst þrátt fyrir að sumt sé þó í sömu skorðum. Ég man eftir mörgu sem yngri kynslóðir vita jafnvel ekki að hafi verið eins mikilvægur hlekkur og reyndist vera. Kaffiterían í Skaffó var þvílík bylting, Bílasalan var eins og félagsmiðstöð stundum og að fá inngöngu í partýin í Villa Nova gjörbreytti stöðu manns í samfélaginu, að eigin mati. Þá varð maður fullorðinn.  Böllin í Bifröst, Miðgarði, Húnaveri og á Blönduósi, svo ekki sé minnst á Framsóknarböllin sem voru af allt öðrum meiði. Þegar ég rifja þetta upp og segi börnunum mínum frá þessum tímum líður mér eins og risaeðlu en mjög hamingjusamri risaeðlu. Að ég tali nú ekki um að ég man þegar fyrsti pizzastaðurinn kom á Krókinn. Ég vona svo innilega að börnin mín eignist jafn ánægjulegar minningar og ég á, kossar á bak við Bifröst, rómantísk gönguferð meðfram ánni við Húnaver og vinkonupiss og trúnó  á milli trjáa við Miðgarð. Mér finnst sorglegt að börnin mín upplifi ekki sveitaballastemmninguna en þau sennilega upplifa eitthvað annað skemmtilegt.

Skagafjörðurinn á sérstakan stað í hjarta mínu og þegar ég fer þangað tala ég um að fara heim. Heim í minningarnar. Fyrir 26 árum síðan flutti ég á Suðurlandið og nú er það líka mitt heima. Ég á tvö börn, Klöru Valgerði sem er þrítug og það er hægt að finna slatta af Skagafirðinum í henni. Sonur minn, Sindri Snær sem er 16 ára er Sunnlendingur af húð og hár. Þegar þau ná mínum aldri verður Rangárvallasýslan heim í þeirra augum. Tímarnir breytast og óhjákvæmilega breytast mennirnir með. Munum bara að njóta tímans og hafa gaman. 

Ég skora á partýljónið Sólrúnu Fjólu Káradóttur sem næsta penna. 

Áður birst í 23. tbl Feykis 2020

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir