Torskilin bæjarnöfn - Dæli í Sæmundarhlíð

Dæli í Sæmundarhlíð í september 1997. Gamla húsið lengst til vinstri. Mynd: Byggðasaga Skagafjarðar 2. bindi.
Dæli í Sæmundarhlíð í september 1997. Gamla húsið lengst til vinstri. Mynd: Byggðasaga Skagafjarðar 2. bindi.

 Bærinn stendur lágt og hefir sjálfsagt heitið í fyrstu Dæl, sem haft er í eldra máli um lægð eða lág, samstofna við orðið dal, en nú er ávalt haft dæld, nema í bæjanöfnum. Eignarfallið dælar, t.d. í samsetningunni Dælar-land (orðið „dæl“ er mikið notað fyr á öldum, sbr. líka markdæl, Dipl. V. b., bls. 298) sýnir, að orðið hefir upphaflega verið dæl í nefnifalli og beygst eins og geil (dæl er auðsjáanlega kvk., en „dæli“ notað sem hvorugkyns, eins og bæli, hæli, sbr. eignarfall dælis). Nú er alment haft eignarfallið Dælis, og fleirt. nefnifalls Dælir (ekki Dælar). (Efamál getur það verið, að viðskeytið i hafi myndað nefnifall af áhrifum þágufalls, því að þágufallið af dæl [nf.] hlaut að vera dæl). -

Mjer þykir sennilegra, að i væri komið úr nefnifalli fleirtölu. dælir, því að orðið er ýmist haft í eintölu eða fleirtölu um sama bæjarnafn (sjá Safn t. s. Íslands IV. b., bls. 522). Orðmyndin dæli hefir og þekst snemma, því að hún kemur fyrir í Auðúlfsstaðabrjefi árið 1378 (Dipl. Ísl. V. b., bls. 253). Dæl er því rjett ritað þannig í eintölu, en að líkindum er bezt að láta fleirtölumyndina Dælir haldast óbreytta, en menn ættu að festa það vel í huga, að það er kvenkynsorð í fleirtölu (ekki karlkyn), sbr. beygingarbreytingar sem þessar: sakar, nú sakir, farar (af gotn. faru), nú farir (sbr. hrakfarir og „sínar farir ekki sljettar“ [talsh.])

Rannsóknir og leiðréttingar Margeirs Jónssonar

Áður birst í 10. tbl. Feykis 2019.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir