Torskilin bæjarnöfn :: Keta á Skaga

Myndatexti: Kirkja og bær á Ketu um eða skömmu fyrir 1940. Horft úr suðri yfir lambfé í túni og „stakkett“ í kirkjugarðinum sunnan við bæinn. Mynd úr Byggðasögu Skagafjarðar I. bindi.
Myndatexti: Kirkja og bær á Ketu um eða skömmu fyrir 1940. Horft úr suðri yfir lambfé í túni og „stakkett“ í kirkjugarðinum sunnan við bæinn. Mynd úr Byggðasögu Skagafjarðar I. bindi.

Jeg hefi ekki fundið Ketunafnið í eldri skjölum en í registri yfir „máldagabók“ Auðunar biskups rauða á Hólum. Þar er minst á „Kietu“ á Skaga, og registrið er frá 1318, eða þó yngra, ef til vill (sjá Dipl. II. b., bls. 488). Rúmri öld síðar, eða 1449 er „Keito“ (Keta) á Skaga talin í kúgildaskrá Hólastóls (Dipl. V. b., bls. 38).

En eins og áður er sagt, er skrá þessi þýðingarlítil í þessu sambandi, því að flest nöfnin eru meira og minna bjöguð og blandin norskum rithætti. Auðvitað er því Ketunafnið afbakað þar, sem önnur. Þetta er líka eini staðurinn, sem jeg hefi fundið, um annan lesmáta á nafninu. Alstaðar annarsstaðar er nafnið nálega eins: Keta (sbr. t.d. lX. b., bls. 302 og víðar í Fornbrjefasafninu).

Þar sem Ketunafnið þekkist í sömu mynd nú (sjá m.a. jarðamatsbækurnar) og um 13. öld; sbr. hjer áður, hlýtur nafnið að hafa breyzt fyrir þann tíma, ef nafnið er ekki upprunalegt: Keta. Hvergi hefi jeg fundið þetta nafn í samsetningum örnefna annarsstaðar á landinu, nema ef telja skyldi Ketsvog. (Í kvæðinu „Fjölmóður“, eftir Jón Guðmundsson lærða:

Lágu fjögur skip
langt um norðar
í Árnes-þinghá
alls hjá Ketvogi.)

En talið er að heiti Kersvogur rjettu nafni (Safn til sögu Íslands V. b., bls. 41). Auk þessa er til annar Ketubær á Íslandi (Keta í Hegranesi) og eru þá samnefni upptalin og ekkert á þeim að græða, þegar frá eru skilin örnefni, einmitt kringum Ketu á Skaga, sem nú skal getið. Ketubær stendur á að gizka 140-150 faðma frá sjó. (Eftir sögn Sveins bónda, sem þar hefir lengi búið.) Alllangt frá bænum inn með sjónum eru háir klettar, kallaðir Ketubjörg. Örskamt framan við björgin, þar sem þau eru hæst, er hár drangur, sem er kallaður Kerling. Skamt þar frá var annar drangur, Karlinn, sem er hruninn að mestu. Framundan þessum stöðum er allstórt sker, svo kallað Þursasker. Vegurinn út Skagann austanverðan liggur eftir björgunum. Þar

sem þau eru hæst er ofurlítið skarð, sem vegurinn liggur um. Þar er kölluð Tröllarjett og má sjá þar rústir af fjárrjett. Þrautalendingin á Skaga er einmitt suður og niður undan Ketubæ, og er og hefir verið alment kölluð Keta. (Alment sagt á Skaga, „að lenda í Ketunni,“ „fara ofan í Ketuna“.) Ýms og æfagömul munnmæli eru algeng á Skaga í sambandi við öll þessi „tröllakendu“ örnefni. Yrði of langt mál að rekja þau hjer, en öll benda þau á, að þarna hafi verið allálitleg tröllabygð í fyrndinni. (Tröll hafa menn kallað þá, sem hafa verið yfir 3

álnir, en sögurnar hafa ýkt stærðina stórkostlega, sbr. tröllstór.) Eftirtektavert er það, að í hæfilegri fjarlægð er Kerlingardrangurinn afarlíkur geysistórum kvenmanni. „Kerlingin“ virðist horfa upp á bjargsbrúnina, og andlitsfallið er greinilegt. Loks er neðri hluti drangsins líkur því, sem allmikill „gustur standi í pilsin á kerlingunni“. Jón hreppstjóri á Hafsteinsstöðum og Sveinn, sem áður er nefndur, hafa báðir lýst þessu eins fyrir mjer. Nú

mætti geta þess til, að drangarnir hafi lítið breyzt frá landnámstíð, nema Karlinn, sem hruninn er. Vegna þess, hve annar drangurinn virtist líkur risavaxinni kerlingu að útliti, hefir hann fengið nafnið „Kerling“. Örnefni samskonar eru afarvíða á landinu, eins og kunnugt er. Hvort nokkur fótur sje fyrir skessusögnum þeim, sem áður eru nefndar, eða þær hafa skapast í sambandi við „Kerlinguna“ upphaflega, verður ekkert um sagt.

En örnefnin eru merkileg. Þess mætti nú geta til, að „Kerlingin“ hefði til forna verið kölluð Ketta. Á þeim tímum hefði bærinn verið bygður og verið nefndur „Ketta“ eftir kerlingunni. Eitt af alkunnum skessuheitum er einmitt „Ketta“. Rúmsins vegna, verður eitt dæmi að nægja: „Hann hjelt um hana miðja, „Kettuna,“ er sagt um Gretti, þegar hann fjekst við flagðkonuna í Bárðardal (Grettissaga, bls. 200). Væri nafnið svona myndað, hlyti vörin að hafa heitið Ketta og hamrarnir Kettubjörg í fyrstu. Að nafnið „Ketta“ breytist í Keta, er auðvitað fólgið í styttingu samhljóðans t, sem þekkt er í eldra máli, t.d. vettr (úr vintr) verður vetur, kettlingur verður ketlingur o.s.frv. En annars er þýðingarlítið að fara lengra út í þetta atriði, því að nafnaskýringin getur ekki orðið nema óviss tilgáta. Geta skal þess að fyrstu bendingar um greind örnefni, fjekk jeg frá Jóni hreppstjóra á Hafsteinsstöðum, og þar eð kringum Ketu á Hegranesi er líka mjög klettótt, svo vel gæti einhver „Kerling“ hafa verið þar í nánd fyrrum, þótti okkur þetta fremur líkleg ágizkun að uppruna Ketunafnsins. En hvernig sem þessu er farið, benda örnefnin sérstaklega á, að þau sje kend við einhverja Ketu (kvenheiti?), eða Kettu í fyrstu.

Rannsóknir og leiðréttingar Margeirs Jónssonar

Áður birst í  10. tbl. Feykis 2022

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir