Um nýtni og viðgerðir – Byggðasafnspistill :: Inga Katrín D. Magnúsdóttir skrifar

Steikarfat frá Vatnskoti í Hegranesi. Fatið hefur brotnað og sprungið, en verið spengt með garnspotta og járnvír. Það hefur sennilega verið soðið saman með mjólk eða álíka efni, eins og stundum var gert.
Steikarfat frá Vatnskoti í Hegranesi. Fatið hefur brotnað og sprungið, en verið spengt með garnspotta og járnvír. Það hefur sennilega verið soðið saman með mjólk eða álíka efni, eins og stundum var gert.

 Í auknum mæli er rætt um nýtingu hluta og endurvinnslu af ýmsu tagi. Við lifum í einnota samfélagi þar sem tíðkast jafnvel að nota bolla einu sinni og henda svo. Við hendum fatnaði sem komið er gat á, í stað þess að lagfæra hann. Við hendum jafnvel óskemmdum fötum, bara vegna þess að við erum leið á þeim. Verðmætamat hefur tekið gríðarlegum breytingum á síðustu áratugum.

Frá fyrri hluta 20. aldar hefur orðið mikil breyting á samfélaginu sem þróaðist úr bændasamfélagi sjálfsþurftar, í neyslumiðað iðnaðarsamfélag nútímans. Í kjölfarið bættist hagur fólks og hegðun er varðar efnismenningu breyttist með. Í samfélagi 19. aldar átti hinn almenni borgari tiltölulega fáar eignir, þeir allra fátækustu áttu varla föt til skiptanna. Eigur fólks urðu fyrir vikið mjög dýrmætar. Þegar hlutir skemmdust, var reynt að lagfæra þá. Þegar ekki var hægt að laga hluti var leitast við að nýta þá á annan hátt. Kaupstaðaferðir voru fátíðar og ekki var „skroppið í búðina“ við minnsta tilefni. Fólk þurfti því að vera nægjusamt og bjarga sér þegar það gat.

Ýmsir gripir sem söfn varðveita bera merki fortíðar sinnar og notkunar. Þeir eru misgamlir, mismikið notaðir og í ýmiskonar ásigkomulagi. Sumir gripir virðast hanga saman á lyginni einni, en það eru oft þeir gripir sem segja okkur mest um verðmætamat eigenda þeirra. Hjá Byggðasafni Skagfirðinga eru margir gripir sem sýna viðleitni fólks til að gjörnýta eigur sínar. Sumir gripir varðveita hugmyndaauðgi í viðgerðum og aðrir hugmyndaflug í nýtingarmöguleikum.

Inga Katrín D. Magnúsdóttir

Áður birst í 12. tbl. Feykis 2020.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir