Ungt fólk til áhrifa

Fyrir um það bil tveimur mánuðum var mér boðið að vera á lista Sjálfstæðisflokksins í Skagafirði. Fyrst var ég efins og fannst ég ekki endilega eiga erindi á lista, ég væri ekki nógu vel að mér í bæjarmálum og hefði kannski ekki mikið til málanna að leggja. Ég ákvað þrátt fyrir þessar efasemdir mínar að slá til og vera í 13. sæti á lista XD í Skagafirði.

Eftir að vera búin að sitja íbúafundi, halda opið kvöld fyrir nýja kjósendur og vera á kosningaskrifstofunni að ræða við áhugavert fólk, sé ég að þessar efasemdir mínar voru óþarfar.  Á síðustu vikum hefur mér hlotnast sá heiður að ræða við íbúa sveitarfélagsins um stöðu mála hér í firðinum, hvað hafi verið gert, hvað sé í vinnslu og hvað þurfi að bæta til þess að íbúum líði sem best. Auðvitað er ég ekki komin inn í öll málefni sveitarfélagsins en ég er margs vísari eftir þennan stutta tíma.

Helsta ástæða þess að ég sest niður og skrifa þessa litlu grein er að vekja ungt fólk til umhugsunar og hvetja það til þess að taka þátt í sveitarstjórnarmálum. Það væri óskandi að fleiri hefðu kynnst því hversu gaman það er að taka þátt í stjórnmálum. Mín ágiskun er sú að ungu fólki finnist pólitík aðallega vera rökræður sem ekki fara fram á mannamáli.  Fyrir nokkrum árum fannst mér þetta líka. En þetta er ekki svona. Ég hef gert mér grein fyrir því núna hversu mikilvægt er að hafa skoðanir um samfélagið sitt og hversu mikilvægt það er að taka beinan eða óbeinan þátt í að byggja upp betra samfélag fyrir okkur öll. Sveitarstjórnarmál snúast í raun um allt það sem skiptir þig máli, umhverfið, þjónustuna, menningarlíf, atvinnu, félagsstarfsemi og svo mætti lengi telja. Núna er tíminn til þess að velta fyrir sér hvað við getum gert til að gera samfélagið okkar betra, til þess að stuðla að því að öllum líði vel. Þín skoðun og þitt atkvæði skiptir máli, en það er undir þér komið hvort þú viljir koma skoðunum þínum á framfæri. Við í Sjálfstæðisflokknum eru allavega tilbúin að hlusta á þína skoðun.

Ef þú gætir hugsað þér að taka þátt í sveitarstjórnarmálum þá mæli ég hiklaust með því, það er alltaf pláss fyrir fleira ungt fólk og svo er þetta þrælskemmtilegt!

Í lokin hvet ég alla til að kynna sér stefnu Sjálfstæðisflokksins og nýta kosningarétt sinn.

Bryndís Lilja Hallsdóttir, 13. sæti lista Sjálstæðisflokksins

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir