Út um græna og hreina grundu

Þessa dagana ekur maður um Skagafjörð í vímu. Víman er af ýmsum toga. Fyrst ber að nefna blessað vorið sem hefur leikið við okkur síðustu vikurnar og glætt náttúruna lífi og lit. Í öðru lagi er það hinn mishöfgi ilmur húsdýraáburðar sem um þessar mundir er dreift á tún í héraðinu. Í þriðja lagi er það svo spenningur og gleði í vinnu fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.

Það er indælt að vera í stórum hópi fólks  sem þessa dagana hugsar um fátt annað en hvernig vinna megi héraðinu okkar sem mest gagn, því til blessunar og framdráttar á öllum sviðum. Það er sama hvaða bókstafur er á barmmerkinu okkar, öll eigum við það sameiginlegt að vilja hag Skagafjarðar sem mestan og bestan.

Við Skagfirðingar erum líka flestir, ef ekki allir, sammála um það að varla geti að líta fegurra og búsældarlegra hérað á gjörvöllu Íslandi og þótt víðar væri leitað.

Sannarlega má taka undir það að almættið hafi vandað sig sérlega þegar það skóp Skagafjörð. Náttúran er stórbrotin og vekur með þeim er eiga leið um, lotningu og gleði yfir sköpunarverkinu.

Fátt er skemmtilegra en að aka um blómlegar sveitir, þorp og bæi landsins. Snyrtileg sveitabýli og vel hirtir bæir og þorp kalla oft fram þá tilfinningu að hér myndi maður gjarnan vilja búa. En því miður er sumstaðar pottur brotinn í umgengni mannskepnunnar við sitt nánasta umhverfi.  Allt of víða má sjá ryðgað járnadrasl, ónýtar heyrúllur, spýtnarusl og ýmislegt fleira sem hvergi á heima nema á haugunum. Slæm umgengni, hvort heldur í bæ eða sveit getur eyðilagt upplifunina af annars fallegu umhverfi. Draslaralegt umhverfi laðar ekki að fólk.

Héraðið okkar er því miður ekki alveg laust við draslaraskap þó víðast hvar séu hlutirnir í góðu lagi. Því þarf að gera átak, taka til á þeim stöðum sem verst eru útlítandi. Hvetja þarf eigendur þessara staða til að hreinsa til hjá sér. Sveitarfélagið þarf að ganga á undan með góðu fordæmi og sjá til þess að svæði á þess vegum séu vel hirt og gæti jafnvel aðstoðað þá, sem á þurfa að halda, við tiltekt með einhverjum hætti. En að sjálfsögðu er það fyrst og fremst okkar sjálfra, íbúanna, að halda umhverfinu okkar hreinu. Það er allra hagur.

Löðum að ferðamenn og nýja íbúa með fyrirmyndar umgengni.

Björg Baldursdóttir
skipar 3. sæti V lista, Vinstri grænna og óháðra

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir