Vinnuvikan stytt til reynslu í leikskólum Skagafjarðar

Það er mikið framfaramál að Sveitarfélagið Skagafjörður stefni að styttingu vinnuvikunnar á sínum vinnustöðum og vel til fundið að hefja slíkt verkefni í leikskólunum. Það lögðum við í VG og óháðum til vorið 2018 og ennfremur að vinnuvika starfsmanna yrði stytt í 36 stundir á viku, án þess þó að skerða þjónustu á nokkurn hátt. Í áformum VG og óháðra lögðum við áherslu á sveigjanleika fyrir starfsfólk og að komið væri til móts við hvern og einn starfsmann eins og hægt sé. Þannig væru fundnar leiðir sem allir gætu sæst á.

Nú hefur starfshópur sem skipaður var starfsfólki sveitarfélagsins lagt til að farið verði í afmarkað tilraunaverkefni með styttingu vinnuvikunnar. Fræðslunefnd hefur verið falið að koma með frekari útfærslur á framkvæmdinni ásamt öðrum úrbótum.

Sjálf átti ég samtal við leikskólastjóra sveitarfélagsins um styttingu vinnuvikunnar á vinnustöðum þeirra vorið 2018 og viðbrögð þeirra mjög jákvæð. Þeirra mat var að með vilja væri þetta leysanlegt á farsælan hátt og ávinningurinn algjörlega þess virði.

Erfiðlega hefur gengið að manna leikskóla hér í sveitarfélaginu með leikskólakennurum. Mannabreytingar eru því tíðar á vinnustöðum þar sem stöðugleiki skiptir börnin okkar máli. Laun leikskólakennara eru skammarlega lág miðað við ábyrgð og vinnuálag. Stytting vinnuvikunnar án launaskerðingar er ákveðin launauppbót og það ásamt sveigjanleika vinnutímans gerir vinnustaðina eftirsóknarverðari.

Rannsóknir sýna að á þeim vinnustöðum sem stytt hafa vinnuvikuna telja starfsmenn sig afkasta meiru í vinnunni en finna þó um leið minna fyrir álagi og stressi. Að auki fækkar skammtíma veikindadögum og líkur á kulnun í starfi minnkar. Styttri vinnuvika skilar sér einnig í fleiri gæðastundum fjölskyldunnar.

Þó tillaga starfshópsins feli í sér tilraun á afmörkuðu tímabili er ég bjartsýn á að styttingin sé komin til að vera, í ljósi reynslu annarra vinnustaða í kjölfar styttingu vinnuvikunnar. Gefist þetta verkefni vel, þá gætu aðrir vinnustaðir sveitarfélagsins fylgt í kjölfarið með styttri vinnuviku.

Við í VG og óháðum viljum þakka starfsfólki sveitarfélagsins og umræddum starfshóp fyrir þeirra vinnu og undirbúnings að styttingu vinnuviku leikskólanna. Um er að ræða eitt af áherslumálum VG og óháðra eins og ítarlega var farið yfir í grein undirritaðar sem birt var á feykir.is, þann 17. maí 2018. Sjá HÉR

Álfhildur Leifsdóttir, sveitarstjórnarmaður VG og óháðra

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir