Leiðari Feykis fær lof

Leiðari Feykis vakti athygli lesanda sem var hrifinn.
Leiðari Feykis vakti athygli lesanda sem var hrifinn.

„Já, ég er hérna að hringja út af leiðaranum í síðasta blaði. Þarna þar sem segir að kellingar eigi að halda kjafti. Mikið óskaplega er ég sammála þessu. Ég vil bara þakka ritstjóranum fyrir þessi skrif. Getur þú þakkað honum fyrir mig?“

„Ég get komið því til skila já.“

„Já, mér finnst að konur ekki eiga að vera skipta sér að svona því sem skiptir máli í samfélaginu.Þær hafa ekki vit á þessu... þessu öllu.“

„Eins og hverju þá?“

„Nú, pólitíkinni og svona. Ég held, skal ég segja þér, að það sé aaaal-gjör tímaskekkja að konur hafi kosningarétt. Konur hafa ekkert tíma fyrir svona lagað. Að hugsa og svona. Þær eru allar farnar að vinna úti og svo eru þær í alls konar Soroptimistaklúbbum og blaki og svona á kvöldin. Þær hafa engan tíma lengur til að ala upp börnin og sinna eiginmanninum. Já, þær eiga ekkert að vera vasast í því að ráðskast svona með karlahlutina. Ég væri ekki hissa ef þær væru farnar að horfa á fótboltann í sjónvarpinu... hahahahahaha.“

„Nei, nú ertu að grínast!?“

„Síður en svo. Ég sé þetta bara þegar ég fer út í búð. Ekkert nema karlar að versla inn, þreytulegir með baugana hangandi niður í munnvikin og innkaupamiðana á lofti. Alveg vita undir hælnum á mæðraveldinu. Óskaplegt að sjá þetta nú til dags.“

„Er þetta nú ekki svolítið ýkt hjá þér?“

„Nei, karlar þurfa að fara að standa í lappirnar. Mér finnst þetta óskaplega dapurlegt að horfa upp á syni mína svona beygða, þeir eru jafnvel farnir að ryksuga og svona. Halldór gerðu þetta, Símon gerðu hitt! Og svo hlýða þessir vesalingar bara öllu. Það er af sem áður var skal ég segja þér! Ég kem í það minnsta ekki svona fram við minn mann.“

„Það er nefnilega það. Frá hverjum á ég að skila kveðju til ritstjórans?“

„Nú frá mér, Guðrún hérna á Freyjugötunni. Þakkaðu honum vel fyrir leiðarann, hann var alveg frábær.“

„Guðrún, lastu allan leiðarann?“

„Neinei, ég las nú bara fyrirsögnina. Hvernig var þetta nú? Já, hérna er þetta: „Konur skulu þegja.“ Alveg frábært og já, bara orð í tíma töluð. En þú skilar kveðjunni.“

 

- - - - - 

* Lesendum til glöggvunar þá skal það tekið fram að þar sem Guðrún las ekki allan leiðarann þá áttaði hún sig ekki á því að leiðarinn fjallar einmitt um að konur eigi að láta raddir sínar heyrast. Titillinn því í raun öfugmæli þó vitnað sé í Pál postula.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir