Með atkvæðaseðilinn í vasanum – setti tossalista í kjörkassann

Geir Gunnarsson á Sauðárkróki lenti í því á kjördag að setja tossalista frá eiginkonunni í kjörkassann í stað atkvæðaseðilsins sem hann fékk þegar hann nýtti kosningarétt sinn. - Ég uppgötvaði þetta þegar ég kom upp í Hlíðakaup, sagði Geir í samtali við feykir.is.

- Konan lét mig fá tossalista þar sem ég ætlaði í búðina þegar ég væri búinn að kjósa og á einhvern óskiljanlegan hátt þá setti ég tossalistann í kjörkassann en stakk atkvæðaseðlinum inn á mig. Mér brá því heldur betur í brún þegar ég sá hvað var í gangi og í staðinn fyrir að sjá þarna skyr og mjólk, sá ég bara Sigurjón Þórðar, Jón Magg og þá félaga alla efsta á lista.

Geir snéri þegar í stað aftur á kjörstað og reyndi að fá kjörstjórn til að opna kassann og sækja tossalistann en við því var ekki hægt að verða eðlilega því kassana má aðeins opna þegar atkvæðin eru talin. Ekki gat hann heldur skilað inn atkvæðinu þar sem ekki má fara með það út úr húsi. – Mér var svo sem slétt sama um þennan atkvæðaseðil, en það var verra með tossalistann og ég keypti bara einhverja helvítis vitleysu, sagði Geir að lokum.

/Dreifarinn

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir