Það er eitthvað bogið við stólinn

Á dögunum hafði Helgi Sturluson, bóndi í Húnaþingi, samband við Dreifarann og vildi segja frá viðskiptum sínum við verslun sem selur ónefnd sænsk húsgögn. Dreifarinn tók vel í erindi Helga og ákvað að spyrja hann aðeins út í þetta.



Hvernig gengur lífið fyrir sig í sveitinni, Helgi? -Jaa, þetta hefur nú verið sæmileg tíð að undanförnu, ég á nú eftir að sjá hvort það verði mikið um kal í túnum, það kemur í ljós nú með vorinu. Þetta er alltaf sami slagurinn við náttúruöflin.

En hvað segirðu Helgi, um hvað snýst þetta mál?
- Nú, þetta er ekki flókið maður, ég var staddur þarna í Reykjavík með konunni og hún er búin að vera að jagast þetta í mér að okkur vanti eitthvað nýtt í húsið, ég sé nú ekki annað en þetta sé allt eins og nýtt hjá henni, en jæja, við göngum inn í verslunina og ég rek strax augun í þetta fína eikar borðstofuborð og leðurstóla með löppum úr eik sem mér lýst svona helvíti vel á. Til að gera langa sögu stutta, þá hugsa ég mig ekki tvisvar um, geng frá kaupunum, já og hreinlega staðgreiði þetta. Það gerist nú ekki oft í dag góði minn, þeir vissu varla hvaðan á þá stóð veðrið þegar ég rétti þeim straujaða seðlana yfir borðið.

Varla getur það nú talist svo merkilegt að þú staðgreiddir vöruna Helgi?
-Nei heyrðu, vertu nú aðeins hægur vinur. Ég set húsgögnin í kerruna og við keyrum beinustu leið norður. Ég er alveg að farast úr spenningi og auðvitað byrja ég strax að skrúfa herlegheitin saman þegar ég er búinn að drösla þessu inn á gólf. Þetta er barnaleikur í samsetningu. Nema hvað, þegar allt er tilbúið og ég lít yfir árangurinn tek ég eftir að ein löppin á stólnum vísar sko ekki niður góði minn, hún hreinlega svignar bara út í loftið og jafnvel með öðruvísi áferð.

Ertu búinn að kvarta yfir þessu Helgi?
 -Auðvitað er ég búinn að því maður, það gekk ekki neitt, starfsmaðurinn var bara dónalegur og rak upp hrossahlátur þegar ég útskýrði þetta fyrir honum. Hann spurði hvort ég hefði ekki bara sett þetta vitlaust saman – óttalegur kjáni þessi borgarpiltur, auðvitað setur maður ekki stól vitlaust saman!

Já, þetta er furðulegt, hverja telur þú vera skýringuna vera á þessari svignu löpp?
-Ég er nú búinn að vera hugsa þetta aðeins og miðað við sjö fréttirnar í gærkvöldi þá grunar mig að þarna hafi undirstaða af gömlum rugguhesti verið notuð í eina löppina, það er jú verið að nota hesta í allan andskotann, en auðvitað vill maður alvöru eikarlöpp en ekki gamlan rugguhest! En finnst þér þetta ekki vera vörusvik og ekkert annað?

Auðvitað eru þetta vörusvik Helgi, ætlarðu ekki með málið eitthvað lengra? -
Já auðvitað eru þetta vörusvik!! Ekkert annað! En nei, veistu ég bara held að ég geri ekki meira mál úr þessu, ég var að velta því fyrir mér sjálfur, búinn að æsa mig upp í meira vesen, en konan mín, sem alltaf sér jákvæðu hliðarnar á öllu, segir að það sé auðvitað betra að rugguhesturinn hafi endað sem húsgagn heldur en að hafa verið fræstur og notaður í matvælagerð. Ekki viljum við bændur það, nógur er nú barlómurinn í borginni svo það er ekki á þann söng bætandi. En hún Magga mín verður þá bara að nota bilaða stólinn, ég næ ekki jafnvægi á honum. Og hún er náttúrulega svo mikil um sig blessunin að það líður ekki langur tími þar til hinir fæturnir verða orðnir jafn bognir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir