7 marka sigur í Grundarfirði

Strákarnir í Tindastóli gerðu góða ferð í Grundarfjörð um helgina og unnu heimamenn  með miklum yfirburðum eða með sjö mörkum gegn engu. Sigurður Halldórsson þjálfari fór miðvarðalaus til Grundarfjarðar en "allir" miðverðir liðsins voru fjarverandi; Bjarki Már, Donni, Stefán Arnar og Simmi. 

Það hafði hinsvegar ekki nokkur áhrif á leik liðsins og liðið hafði mikla yfirburði í Grundarfirði.  Kristinn og Pálmi komu inn eftir nokkra fjarveru en báðir þessir leikmenn hafa átt í meiðslum eins og svo margir aðrir leikmenn liðsins.

Tindastóll var mun betri aðilinn allan tímann og ekkert ógnaði sigri þess.  Í hálfleik var staðan 0-3 og lokatölur 0-7 eins og áður sagði.  Sigurinn hefði getað orðið mun stærri en þessar tölur segja til um því Tindastólsmenn brenndu af nokkrum ágætum færum.

Kristinn Aron sem spilaði sinn fyrsta deildarleik með liðinu skoraði tvö mörk og ætlar sér að bera nafn MarkaKidda með rentu.  Atli Arnarson skoraði eitt mark og Gunnar Stefán sem hefur farið mikinn í leikjum 2.flokks, skoraði eitt mark.  Ingvi Hrannar sem spilaði fyrri hálfleikinn í miðverði, skoraði þrennu í leiknum og er markahæstur leikmanna liðsins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir