Á Sturlungaslóð í Skagafirði

Ágæt aðsókn var á Sturlungaslóð í Skagafirði á laugardaginn þrátt fyrir að mikið væri um að vera í firðinum. Um 40 manns hlýddu á Sigríði Sigurðardóttur frá Byggðasafni Skagfirðinga og Laufeyju Guðmundsdóttur á Hólum flytja dagskrá um Brand Kolbeinsson á Reynistað. 

Þá var haldið á Haugsnessgrundir en þar fór fram formleg afhjúpun listaverks Sigurðar Hansen í Kringlumýri um Haugsnesbardaga en verkið gengur undir nafninu Grjótherinn. Þar hlýddu um 70 manns á Sigurð segja frá tilurð þessa stórfenglega verks en segja má að þessi forni bardagi sé nú orðinn eins sýnilegur og hlutgerður sem mögulegt er og er ekki að efa að grjóther Sigurðar ásamt róðukrossinum rétt við eru ný kennileiti sem eiga eftir að draga að ferðamenn.

Um kvöldið var Ásbirningablót í  Miðgarði en þar var í boði ljúffengur matur að hætti miðalda ásamt því sem ýmsir stigu á stokk og fluttu pistla og gamanmál undir styrkri stjórn Eyþórs Árnasonar frá Uppsölum.

Senn  líður að lokum sumardagskrár Sturlungaslóðar í Skagfirði þetta árið en henni lýkur með gönguferð laugardaginn 21. ágúst frá Örlygsstöðum í Flugumýri en einmitt þann dag árið 1238 var hinn afdrifaríki bardagi á Örlygsstöðum háður.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir