Að fullorðnast - Áskorandinn Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir Vestur Hún.

Ég held ég hafi ekki verið há í loftinu þegar ég fór að velta því fyrir mér hvað fælist í því að fullorðnast, hvenær maður geti talist fullorðinn og hverju það myndi breyta. Satt að segja hafði ég óttablandnar áhyggjur vegna þess sem væri í vændum.

Það voru ekki bara gluggaumslögin eða orð eins og viftureim, brjóstsviði eða höfuðstóll sem ég ekki skildi, sem ollu mér áhyggjum. Mestar áhyggjur hafði ég af því að þegar ég yrði fullorðin gæti ég ekki lengur verið mömmustelpa og miðað við þann fábreytta veruleika sem mér fannst fullorðna fólkið hrærast í, taldi ég það óhugsandi að það hlakka til nokkurs hlutar. Ég meina, fullorðnir fá mjög fáar jólagjafir og pínulítið páskaegg. 

Annað sem hefur mjög vafist fyrir mér varðandi fullorðinsárin er að ákveða hvað ég vilji verða þegar ég verð stór og þar hefur ýmislegt komið til skoðunar. Einhvern tímann í fyrndinni ætlaði ég að verða bóndi en áttaði mig mig þó á því að ég kenndi allt of mikið í brjóst um lömbin til þess að ég gæti ræktað þau til þess eins að þeim yrði slátrað. Eftir fermingabúðir í Vatnaskógi ætlaði ég að verða prestur, þær áætlanir fóru út um gluggann þegar ég á mínum uppreisnar árum sagði mig úr þjóðkirkjunni. Þannig breyttust plön mín úr einu í annað þangað til að ég álpaðist í lögregluskólann, þá fyrst fór að reyna á fullorðins tilburði mína.

Ég hafði nefnilega nokkrar  áhyggjur af því að fólk tæki ekki stelpuskottið mig alvarlega, þrátt fyrir búninginn. Meðvituð um þá gagnrýni sem forsætisráðherrann okkar hefur fengið fyrir að vera síbrosandi lagði ég mig alla fram um að vera alvarleg og valdsmannsleg í fasi. Ekki leið á löngu þar til vinnufélagi minn sagði mér að fólk héldi að ég væri frekar þurr og leiðinleg því ég væri alltaf svo alvarleg, þar fór það.

En hvað sem tilburðum mínum og tilraunum til að fullorðnast líður þá stendur það eftir að ég er enn ægilega mikil mömmustelpa og drifin áfram af tilhlökkun. Það má vel vera að það sé merki um að ég eigi enn langt í land með að fullorðnast en engu að síður er ég ánægð með að sumt breytist ekki þó maður komist á fertugsaldurinn.

Ég skora á kærastann minn Anton Scheel Birgisson sem næsta áskorandapenna.

Áður birst í 40. tbl. Feykis 2020.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir