Æfingaleikir Tindastóls bæði í 1238 og í Síkinu – eða þannig

Meðfylgjandi mynd sýnir þjálfara og hluta leikmanna bregða á leik í sýningu 1238 á Sauðárkróki. MYND: 1238
Meðfylgjandi mynd sýnir þjálfara og hluta leikmanna bregða á leik í sýningu 1238 á Sauðárkróki. MYND: 1238

Sýndarveruleikasýningin á Sauðárkróki, 1238 – Baráttan um Ísland, hefur bæst í hóp samstarfsaðila körfuknattleiksdeildar Tindastóls. Til að innsigla það var meistaraflokki karla og stjórn KKD boðið í hópefliskvöld í Gránu sl. sunnudag og á komandi vikum mun meistaraflokkur kvenna koma í samskonar dagskrá. 

Auk þess að kynna sér Sturlungaöldina og gæða sér á veitingum á Gránu Bistro prófuðu leikmenn meistaraflokks karla nýjan leiktækjasal 1238 þar sem m.a. er hægt að spila litbolta og  ýmiskonar tölvuleiki. 1238 hyggst bjóða upp á fjáröflunarviðburði fyrir körfuboltann í vetur og styðja með margvíslegum öðrum hætti við það góða starf sem KKD Tindstóls stendur fyrir. „Baráttan um Ísland er hafin og þar vonum við að Tindstóll standi uppi sem sigurvegari!“ segir á Facebook-síðu 1238.

Það styttist í að alvaran hefjist í körfunni en nú er undirbúningstímabilið komið á fullt. Lið Tindastóls hefur þegar spilað tvo leiki, gegn liði Þórs í Þorlákshöfn, eins og Feykir sagði frá í liðinni viku, og um síðustu helgi spiluðu strákarnir við Þór á Akureyri. Sá leikur endaði 69-105 fyrir Tindastól. 

Æfingaleikir í september

Fjórir æfingaleikir eru planaðir næstu tvær vikur eða svo og er sá fyrsti í kvöld á Egilsstöðum þar sem Stólarnir mæta liði Hattar kl. 19:30. Síðan er loks komið að því að frumsýna nýtt Tindastólslið í Síkinu að viku liðinni. Æfingaleikirnir hér heima eru sem hér segir: 

19. sept. kl. 19:00 Tindastóll vs Höttur.
21. sept. kl. 16:00 á Tindastóll vs Hamar.
26. sept. kl. 19:00 á Tindastóll vs Þór Akureyri.

Það er því ekki annað í stöðunni en að fara að búa bossann undir þaulsetu á bekkjum Síkisins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir