Afinn fékk bol með kjöroði ársins; Blönduós sefur aldrei

Blönduós sefur aldrei, eru kjörorð Valla á Blönduósi og nú getur hann klæðst þeim honum til mikillar gleði. Aðsendar myndir.
Blönduós sefur aldrei, eru kjörorð Valla á Blönduósi og nú getur hann klæðst þeim honum til mikillar gleði. Aðsendar myndir.

Þeir eru fáir jafn duglegir og Valli á Blönduósi, eða Valdimar Guðmarsson áður bóndi í Bakkakoti, að tala bæinn sinn upp með jákvæðum fréttum og ýmsum frásögnum úr bæjarlífinu. Oft hefur fylgt með að Blönduós sofi aldrei enda margt í gangi sem vert er að minnast á. Fyrir þessa eljusemi sína fékk Valli jólagjöf sem hitti sannarlega í mark.

Á Facebook-síðu sinni birtir Valli mynd af sér í bol sem hann fékk í jólagjöf frá afastelpunni sinni Stefönu Björgu Guðmannsdóttur 13 ára nemanda í Blönduskóla sem fékk þá bráðsnjöllu hugmynd að útbúa bol með kjörorðum afans: Blönduós sefur aldrei!

Stefana Björg Guðmannsdóttir 

„Þrátt fyrir að Stefana sé nú mest í marki þá hitti hún beint í mark með jólagjöfina fyrir afa sinn,“ skrifar Valli á Facebook.

Í samtali við Feykir segist hann hafa notað þetta kjörorð, Blönduós sefur aldrei, á því ári sem er að líða og hefur tengt það við þær miklu framkvæmdir sem hafa átt sér stað á staðnum, bæði litlar og stórar. Hann hafi því orðið mjög glaður þegar hann fékk í jólagjöf frá einu afabarninu bol með þessari fínu áletrun; Blönduós sefur aldrei.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir