Áform um endurbyggingu mylluhússins í Kirkjuhvammi

Til stendur að endurbyggja mylluhúsið í Kirkjuhvammi við Hvammstanga næstu misserin og stendur áhugahópur um mylluna að þeim framkvæmdum. Myllan sem nú stendur uppi í Kirkjuhvammi var endursmíðuð af Jóni Ágústssyni og Birni Þ. Sigurðssyni, Bangsa, árið 1996.
Á 19. öld var kornmylla í Syðsta-Hvammi, knúin af vatni úr Syðri Hvammsá. Í myllunni var malað korn fyrir bændur í nágrenninu en hún var aflögð um aldamótin 1900 þar sem hætt var að flytja inn ómalað korn. Þeir Jón og Bangsi endursmíðuðu svo mylluna og mylluhúsið, sem þá var löngu hrunið. Mylluhúsið er á sama stað og af sömu stærð og áður var en mylluverkið sjálft smíðuðu þeir upp á nýtt eftir teikningu, sem til var á Þjóðminjasafni Íslands, frá þeim tíma sem kornmyllur knúnar af vatnsrennsli voru í notkun hér á landi.
Ástand mylluhússins er orðið svo að það kallar á nauðsynlegar lagfæringar. Síðastliðinn vetur sendi Þorvaldur Böðvarsson, f.h. áhugahópsins, dreifibréf á heimili á Hvammstanga þar sem verkefninu var lýst og þeim sem áhuga hefðu á málinu og vildu styðja verkefni með fjárframlagi og/eða vinnu gefinn kostur á að taka þátt.
Laugardaginn 13. ágúst s.l. hófst fyrsti leggur verkefnisins, þegar áhugasamir einstaklingar mættu upp á sunnanverðan ásinn fyrir ofan Hvammstanga og stungu klömbruhnaus, sem veggir mylluhússins verða hlaðnir úr, undir dyggri leiðsögn Benjamíns Kristinssonar. Myndir frá þeim degi er að finna á vef Norðanáttar.
Á vef Norðanáttar er þeim sem áhuga á að taka þátt í verkefninu með einum eða öðrum hætti er bent á að hafa samband við Þorvald Böðvarsson í síma 893 8504, 451 2396 eða á netfangið thb@simnet.is.