Áfram veginn!

Guðmundur Haukur Jakobsson, forseti sveitarstjórnar Blönduósbæjar og Jón Gíslason, oddviti sveitarstjórnar Húnavatnshrepps.
Guðmundur Haukur Jakobsson, forseti sveitarstjórnar Blönduósbæjar og Jón Gíslason, oddviti sveitarstjórnar Húnavatnshrepps.

Þann 19. febrúar nk. verður kosið um sameiningu Blönduósbæjar og Húnavatnshrepps. Meirihluti kjósenda í sveitarfélögunum tveimur samþykktu tillögu um sameiningu sveitarfélaganna í Austur-Húnavatnssýslu í kosningum í júní 2021, en meirihluti íbúa Skagabyggðar og Sveitarfélagsins Skagastrandar felldi tillöguna. Í kjölfarið ákváðu sveitarstjórnir Blönduósbæjar og Húnavatnshrepps að gefa íbúunum sínum færi á að kjósa um sameiningu sveitarfélaganna tveggja.

Eftir að hafa skoðað málið í samstarfsnefnd um sameiningu er það niðurstaða okkar að sameining myndi verða samfélaginu til góðs, ekki síst þegar kemur að hagsmunagæslu fyrir svæðið. Okkur sem störfum í sveitarstjórnum sveitarfélaganna tveggja þykir hagsmunir sveitarfélaganna okkar oft vega of lítið þegar kemur að skiptingu á fjármunum ríkisins sem renna eiga til þess að auka lífsgæði íbúa landsins og framkvæmdum á þess vegum.

Á svæðinu okkar er urmull af tækifærum í ferðaþjónustu, matvælaframleiðslu, uppbyggingu textílklasa, nýtingu orku í hátækniiðnaði og matvælaframleiðslu svo eitthvað sé nefnt. Hér er á ýmsu að byggja í blómlegu mannlífi og menningarstarfi og íbúaþróun hefur verið jákvæð.

Það sem helst heldur aftur af framþróuninni eru innviðirnir. Mikil orkuframleiðsla er nú þegar í Blönduvirkjun og fyrirhugað að auka við hana, en þegar kemur að því að flytja orkuna til okkar, strandar á byggðalínunni. Fjölmargir ferðamenn eiga leið um svæðið á degi hverjum, en ástand vega utan hringvegarins og takmörkuð uppbygging á ferðamannastöðum standa uppbyggingu í ferðaþjónustu fyrir þrifum. Þessa sömu vegi þurfa fjölmargir íbúar að aka um daglega á leið til og frá vinnu eða skóla.

Samstarfnefnd hefur að undanförnu unnið að því að vekja athygli ráðherra og þingmanna á þörf fyrir uppbyggingu héraðs- og tengivega og stóraukið viðhald þeirra. Við höfum talað fyrir aukinni flutningsgetu byggðalínunnar frá Blönduvirkjun og aukinn stuðning við atvinnuuppbyggingu með framlögum úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða og fjölgun starfa á innheimtumiðstöð sýslumannsins á Blönduósi. Við höfum einnig vakið athygli á þörfinni fyrir bundið slitlag á Blönduósflugvöll og bætta heilbrigðisþjónustu og samhliða sameiningarviðræðunum hefur verkefni um stofnun umhverfisakademíu á Húnavöllum verið hrundið úr vör með stuðningi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Við höfum þannig lagt grunninn að frekari baráttu fyrir þessum hagsmunum fyrir þá sem taka við keflinu í sameinuðu sveitarfélagi.

Með viðræðum um sameiningu hefur sveitarstjórnarfólk í Blönduósbæ og Húnavatnshreppi tekið frumkvæði í að fylgja stefnu stjórnvalda með því að kanna forsendur fyrir sameiningu sveitarfélaganna. Við í samstarfsnefndinni væntum þess að ríki og Alþingi fylgi eigin stefnumörkun á sama hátt og sveitarfélögin, með því að forgangsraða fjármunum til að styðja myndarlega við verkefnið.

Við teljum fullvíst að fjölmennara sveitarfélag eigi auðveldara með að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og að meiri líkur séu á því að á okkur verði hlustað þegar við komum fram saman en sitt í hverju lagi.

Guðmundur Haukur Jakobsson, forseti sveitarstjórnar Blönduósbæjar og Jón Gíslason, oddviti sveitarstjórnar Húnavatnshrepps

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir