Ágætis veður áfram í kortunum
Það er miðvikudagurinn 12. nóvember í dag, styttist óðfluga í aðventuna og fólk þarf að fara að grafa upp jólalagalistana sína fyrr en varir. Jafnaðargeð hefur helst einkennt Vetur konung síðustu vikuna og útlit er fyrir að lítil breyting verði á því fram yfir helgi. Þó gæti aðeins bætt í vind seinni partinn á morgun - fimmtudag - og jafnvel boðið upp á lítils háttar snjókomu. Á föstudag lægir og sólin brýst fram.
Spá Veðurstofunnar fyrir Strandir og Norðurland vestra fyrir daginn í dag er á þessa leið: „Norðaustan 5-10 m/s og stöku él, en 3-8 og þurrt inn til landsins. Norðaustlæg eða breytilega átt 3-8 á morgun og skýjað með köflum. Frost 0 til 7 stig.“ Reyndar er þetta nú heldur leiðinlegri spá en spákortin sjálf gefa til kynna.
Þegar kíkt er á umferðarkort Vegagerðarinnar má sjá að þjóðvegur 1 er ýmist greiðfær eða með hálkublettum. Éljagangur er aftur á móti á Öxnadalsheiði og snjóþekja á vegi. Éljagangur er sömuleiðis á Þverárfjallsvegi og á veginum milli Blönduóss og Skagastrandar. Hálka eða hálkublettir eru annars að mestu á öðrum vegum á Norðurlandi vestra.
