Ágóðaleikur til styrktar Ingva Guðmundssyni og fjölskyldu
Tindastóll og Þór leika annan æfingaleik sinn á stuttum tíma, þriðjudaginn 14. september og verður hann í æfingatíma meistaraflokksins kl. 18.40. Liðin áttust við á laugardaginn var í Þelamerkurskóla og sigraði Tindastóll í þeim leik.
Tekið verður á móti frjálsum framlögum við innganginn, en allur ágóði þessa æfingaleiks rennur til styrktar Ingva Guðmundssyni og fjölskyldu, en Ingvi mun gangast á næstunni undir mergskipti í hetjulegri baráttu sinni við krabbamein.
Körfuknattleiksdeildin hvetur fólk til að mæta á leikinn, sjá hvernig strákarnir koma undan sumrinu og styrkja í leiðinni gott málefni.
Fyrsti leikur Tindastóls í Powerade-bikarkeppninni verður síðan á fimmtudaginn, þann 16. september, þegar Hamars-menn koma í heimsókn. Er það fyrsti opinberi KKÍ-leikur Tindastóls á þessu keppnistímabili, en sigurvegararnir komast í 8-liða úrslit keppninnar og mæta Keflvíkingum á útivelli. Leikurinn á fimmtudaginn hefst kl. 19.15.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.