Metfjöldi rauðra veðurviðvarana árið 2025
Alls voru 327 veðurviðvaranir gefnar út árið 2025. Aldrei áður hafa jafn margar rauðar viðvaranir verið gefnar út á einu ári, en þær voru alls nítján. Allar tengdust þær sunnanillviðri sem gekk yfir landið dagana 5. og 6. febrúar.
Í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands kemur fram að heildarfjöldi viðvarana sé í takt við það sem verið hefur síðustu ár. Frá árinu 2018 hafa að jafnaði um 367 viðvaranir verið gefnar út árlega.
Langflestar viðvaranir sneru að vindi og hríð, eða í 268 tilvikum. Þá voru 59 viðvaranir gefnar út vegna annarra veðurfyrirbæra, þar á meðal asahláku, eldinga, rigningar og snjókomu.
Flestar viðvaranir voru gefnar út á sunnan- og vestanverðu landinu, þar sem fjöldinn var um 35 á hvert spásvæði. Færri viðvaranir voru skráðar á norðaustan- og austanverðu landinu. Rauðar viðvaranir náðu til allra spásvæða nema Vestfjarða.
