Áhersla á áframhaldandi uppbyggingu textíllistamiðstöðvar í Kvennaskólanum

Kvennaskólinn á Blönduósi þar sem Þekkingarsetrið er til húsa. Mynd:FE
Kvennaskólinn á Blönduósi þar sem Þekkingarsetrið er til húsa. Mynd:FE

Þekkingarsetrið á Blönduósi hélt ársfund sinn í Kvennaskólanum á Blönduósi um miðjan síðasta mánuð. Á dagskrá fundarins voru venjuleg aðalfundarstörf, þar á meðal kynning á starfsemi setursins árið 2017. Kynninguna má lesa í heild sinni á vef Þekkingarsetursins

Í kynningunni segir að alls hafi 91 listamaður dvalið í Kvennaskólanum á árinu, þar á meðal styrkhafar á vegum Kulturkontakt Nord auk nemenda frá Listaháskóla Íslands og Håndarbejdes Fremmes UCC í Danmörku. 

Starfsemi ársins einkenndist af textíltengdum verkefnum og var lögð áhersla á þróun rannsókna og áframhaldandi uppbyggingu textíllistamiðstöðvar í Kvennaskólanum. Hefur hún verið eitt af meginverkefnum Þekkingarsetursins frá upphafi og er í samstarfi við Textílsetur Íslands. Með henni gefst tækifæri til að uppfylla mörg af markmiðum setranna varðandi eflingu náms, þróun rannsókna og miðlunar á þekkingu til almennings. 

Hagnýtt rannsóknaverkefni, „Bridging Textiles to the Digital Future", sem hlaut styrk frá Tækniþróunarsjóði Rannís hófst í byrjun september. Verkefnið felur m.a. í sér skráningu í rafrænan gagnagrunn á vefnaðarmunstrum sem tilheyra Textílsetri Íslands, Vinum Kvennaskólans, Heimilisiðnarsafninu o.fl. ásamt uppsetningu vefsvæðis þar sem mynstrin verða aðgengileg fyrir textíllistamenn, hönnuði og nemendur á sviði textíls og miðlun sérþekkingar á TC2 rafrænum vefstól sem staðsettur er í Kvennaskólanum. Verkefni þetta hefur bæði menningarlegt- og atvinnulegt gildi og er einstakt á landsvísu.

Af öðrum verkefnum má nefna átaksverkefni á sviði ferðamála í samstarfi við Ferðamálafélag Austur-Húnavatnssýslu og tilraunaverkefnið ,,Heimsókn listamanna í skóla". Þá höfðu starfsmenn setursins umsjón með námsveri í Kvennaskólanum í samstarfi við Farskólann á Norðurlandi vestra.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir