Áhrif eldgosa á dýr
Snúist vindátt getur vel farið svo að öskufall frá gosinu í Eyjafjallajökli dreifist um land allt. Matvælastofnun hvetur fólk til þess að vera vakandi fyrir öskufalli t.d. með því að leggja út hjá sér hvítan disk.
Komi til öskufalls er ráðlegt að hýsa dýr sem ganga úti auk þess sem passa þarf að þau komist ekki í staðið drykkjarvatn.
Sigurður Sigurðarsson dýralæknir hefur tekið saman áhrif eldgosa á dýr.
Skýrslu Sigurðar má lesa hér fyrir neðan.
ÁHRIF ELDGOSA Á DÝR
Sigurður Sigurðarson dýralæknir tók saman
Skaðleg áhrif eldgosa á dýralíf hér á landi hafa fyrst og fremst verið af völdum eitraðra efna,
sem berast með gosösku og falla til jarðar á gróður og í drykkjarvatn, sem skepnurnar éta eða
drekka og berast ofan í meltingarfærin. Eiturefnin frásogast úr meltingarfærunum til blóðsins og
berast með því um líkamann. Þegar dýr anda að sér eitruðum gosgufum berast þær ofan í
lungu. Þaðan geta efnin einnig frásogast til blóðsins. Síbreytileg vindátt veldur því, að aska
getur dreifst um allt land á tiltölulega skömmum tíma. Enginn staður er því óhultur hér á landi í
eldgosum. Þess eru dæmi að eitruð aska frá Íslandi hafi borist til annarra landa og er talin hafa
haft áhrif þar, einkum á gróður. Ríkjandi vindáttir stjórna því hvar hættan verður mest. Fín
aska, sem berst lengst, getur jafnvel verið hættulegri en sú grófa vegna þess að fínar gosagnir
hafa hlutfallslega stærra yfirborð og binda meira við sig af eiturefnunum. Það eiturefni, sem
kemur helst við sögu hér á landi, bæði við bráða og langvinna eitrun, er flúor. Þar sem flúor er
nefndur í þessari grein er yfirleitt átt við flúoríð, samband þess og vetnis (HF) eða önnur
auðleyst sambönd. Margfaldur munur á flúor hefur mælst í fínni og grófri ösku frá Heklu.
Ef askan er ekki þeim mun meiri(2-3 mm), ganga skepnur að beit á landi sem fín aska hefur
fallið á, en síður ef askan er gróf og þær kroppa hiklaust strá, sem koma upp úr ösku, hvort sem
hún er fín eða gróf. Í báðum tilfellum er um að ræða eitrunarhættu. Gróðurinn tekur þó heldur
lítið inn í sig af flúor úr ösku og aðeins í skamman tíma. Mengunin fylgir aðallega fína
öskurykinu, sem loðir við gróðurinn. Flúor í nýfallinni Hekluösku hefur mælst 300-4500 ppm,
það er milligrömm af flúor í kílói af ösku (mg/kg = ppm). Flúormenguð aska getur fallið beint í
kyrrstætt vatn(polla,vötn) eða vatnsföll. Úrkoma getur fljótt þvegið flúorinn úr ösku, sem liggur
á jörðinni og á plöntunum og skolað honum út í polla og vatnsföll, en þá er líka fyrst á eftir
hætta á mengun drykkjarvatns, einkum í grunnum pollum eða vötnum. Því er rétt að bæta við
hér, að flúor er þekkt að því að menga útblástur frá álverum, einkum gömlum álverum. Í
nágrenni álvera er því eitrunarhætta, en úr henni má draga verulega með góðum hreinsibúnaði.
UM FLÚOR
Flúor er lofttegund, gulgræn að lit, efnafræðilega skyld klóri og joði. Flúor er óstöðugt efni og
finnst því tæpast nema í efnasamböndum þ.e. sem flúoríð. Það er eitrað í auðleystum
efnasamböndum. Vitað er að flúor í ösku veldur eitrunum í dýrum, ef það fer upp fyrir ákveðin
mörk í fóðri eða vatni, svonefnd þolmörk. Sjúklegar breytingar greinast snemma á glerungi
tanna, sem voru að spretta úr holdi, þegar flúor óx í umhverfinu. Þegar frá líður sést misjafn
vöxtur á tönnum, einkum jöxlum. Skepnurnar fá ,,gadd", sjá nánar um langvinnar flúoreitranir.
Nauðsynlegt fyrir líkamann
Svo virðist sem flúor í mjög litlu magni sé nauðsynlegt efni fyrir líkamann. Flúor finnst í litlum
mæli í umhverfinu, gróðri, vatni, í hafinu og í fóðri sem skepnurnar fá, þótt ekki sé eitraðri ösku
til að dreifa. Miklu meira getur verið af flúor í steinefnablöndum, ennfremur í fiskmjöli. Líkaminn
losar sig jafnóðum við hluta flúors með saur, svita og þvagi, en eftir því sem líður á ævina
safnast jafnt og þétt fyrir í líkamanum hluti þess sem upp er tekinn, einkum í tönnum og
beinum.
Eðlilegt magn flúors
Flúor í eðlilegum leggbeinum haustlamba 1971 mældist 116 ppm að meðaltali, í veturgömlum
2
kindum 560 ppm og í fullorðnum kindum 830 ppm. Meðaltals-tölur íslenskar til samanburðar úr
öðrum heilbrigðum dýrum eru þessar: Í kjálkum úr öldnum kúm 2020 ppm, í hestum 345 ppm, í
hreindýrum 455 ppm í köttum 1305 ppm, í kjúklingum 1470 ppm og í hvölum 8072 ppm.
Bráðar eða langvinnar eitranir
Eitranir verða bráðar, ef mikið af flúor berst í líkamann á stuttum tíma, en langvinnar, ef magn
umfram það sem skepnan losar sig við berst stöðugt til líkamans á löngum tíma. Hætta á
flúoreitrun er mismikil eftir aldri og dýrategund, ástandi dýranna, steinefnum í fóðri, flúormagni
í öskunni, tíma sem áhrifin vara, hvort skepnurnar bera fóstur eða ekki, burðartíma og nyt.
Flúorþol er auk þess álitið vera einstaklingsbundið. Talið er, að nautgripir og sauðfé séu
viðkvæm fyrir eituráhrifum flúors en hross þoli nokkru meira.
Flúor í fóðri
Fóður, sem inniheldur stöðugt 250 ppm mun geta valdið bráðri eitrun eftir skammvinna neyslu.
Sé innihaldið 40-60 ppm tekur 2-3 ár að framkalla langvinna eitrun og veikindi hjá nautgripum.
Þolmörk í fóðri nautgripa eru oft sett við 25-30 ppm og sauðfjár við 70-100 ppm. Meira magn en
20 ppm í fóðri um skeið er þó jafnvel talið draga úr nyt mjólkurkúa. Sumir telja að miklu minna
þurfi til þess að valda eitrun, ef álagið varir langan tíma. Vægar fætlur(beinhnútar) sáust á
kjúkubeinum og leggjarbeinum 2ja kinda 8 og 9 vetra, sem fengið höfðu hitaveituvatn með 1-2
ppm F að vetrinum(hálft árið) alla sína ævi. Ekki hafði borið á helti eða eymslum. Tilraunir með
sauðfé hafa sýnt, hve mikið er af flúor í blóði við yfirvofandi flúoreitrun. Dæmi eru um það hér á
landi að nautgripir, sem fengu drykkjarvatn í fjósið úr volgri laug með 10-11 ppm af flúor hafi
orðið haltir og heilsutæpir eftir fáa mánuði. Þeim batnaði, þegar þeir fengu á ný vatn ómengað
af flúor.
Einkenni flúoreitrunar
Einkenni langvinnrar eitrunar eru beinaskemmdir, vanþrif og lamanir. Flúor bindur kalk, það
nýtist þá verr til mjólkurmyndunar. Þetta skýrir hvers vegna nytin dettur úr mjólkandi peningi
við slíkar aðstæður. Flúormagn í kjálkum á nautgripum getur farið upp í 4500-5000 ppm áður
en beinhnjóskar fara að myndast en 2-3000 í sauðfé. Mesta magn sem mælst hefur úr
sauðarkjálka er um 21.000 ppm. Á honum voru miklir beinhnjóskar vegna langvinnrar
flúoreitrunar. Úr beinunum hverfur flúor aðeins að takmörkuðu leyti, þótt dragi úr flúormagni í
fóðri og fari niður fyrir þolmörk. Mæling á flúor í þvagi gefur til kynna flúorálagið. Í þvagi
sauðfjár er að öllu eðlilegu oft um 5-10 ppm(erl.) en hefur mælst yfir 40 ppm í flúorveiku fé hér
á landi. Langvinn flúoráhrif eru mæld í beinum, oftast í kjálka.
Bráð flúoreitrun
Auðleyst flúorsambönd sogast fljótt og nær algjörlega frá meltingarvegi og finnast eftir 5 mín. í
blóði og ná hámarki á fáum klukkutímum. Útskilnaður með þvagi eykst eftir 2-3 klst frá upptöku
flúors. Vegna þess eiginleika síns að binda kalk í torleyst sambönd, sem nýtast lítt eða ekki í
líkamanum getur flúor í miklu magni valdið kalkskorti í blóði eða doða í ám og kúm og klumsi í
hryssum, einkum nálægt burði eða köstun. Breytileg helti er einkennandi fyrir bráða eitrun.
Orsökin er skemmdir sem verða á liðbrjóski og kalkútfellingar í vöðvafestingum við liðamót,
líklega vegna steinefnaröskunar í líkamanum fyrir áhrif flúors. Önnur afleiðing bráðrar eitrunar
vegna innöndunar eru særindi og bólgur í öndunarfærum, nefi, barka, berkjum og mjög
alvarleg lungnabólga sem getur leitt til dauða, ef öskukorn berast ofan í lungun. Erting, sár og
bólgur verða í meltingarfærunum: vömb, maga og görnum með blóðugum niðurgangi.
Saurinn getur orðið gráleitur af öskukornum eða svartur af blóði. Askan getur safnast í
3
meltingarfærin og valdið meltingartruflunum og jafnvel stíflum. Einkenni bráðrar eitrunar eru
deyfð, slefa og nasarennsli, hósti og frís eða hnerrar, hröð öndun, lystarleysi,
niðurgangur, sjóndepurð og blinda, lamanir og meðvitundarleysi. Nýrun, sem skilja út
þvagið og með því flúor, skemmast oft vegna eituráhrifa flúorsins. Útfellingar geta orðið og
nýrnasteinar myndast. Lifrin er efnaverksmiðja líkamans. Flúor kemur þar við á leið um
líkamann með blóðinu og veldur vefjaskemmdum og mikilli blóðfyllingu. Fleiri líffæri geta orðið
fyrir skemmdum.
Langvinn flúoreitrun
Flúor finnst ekki sem neinu nemur í kjöti eða mjólk. Það sest fyrst og fremst að í tönnum og
beinum. Við það truflast sú fína bygging, sem tryggir hámarks styrk og hörku þeirra. Breytingar
verða fyrst á glerungi framtanna, sem eru að vaxa úr tannholdinu einkum hjá ungum dýrum.
Móleitir og hvítir flekkir sjást í glerungnum, síðan ójöfnur eða göt og glerung getur vantað að
hluta á tönn, sem vaxið hefur úr tannholdi meðan eituráhrifin vörðu. Slíkar tennur nefnast
,,gostennur eða öskutennur''. Önnur áhrif langvinnrar eitrunar er ,,gaddur" og ,,fætlur". Gaddur
myndast við misslit á jöxlum, slitflötur verður ójafn, en það gerir skepnunum erfitt að bíta,
tyggja og jórtra. Flúor verkar ekki jafnt á tennurnar. Sumar tennur verða mjúkar, aðrar halda
hörku sinni. Þær mjúku mást eða slitna undan þeim sem harðari eru. Þær hörðu vaxa áfram og
mynda smám saman tind eða gadd, sem stendur upp fyrir jaxlaröðina, en skörð verða á móti
þar sem mjúkir jaxlar eru. Jaxlaskemmdirnar valda því að slitflötur tannanna aflagast og
skepnurnar geta ekki bitið, tuggið eða jórtrað eðlilega. Þá hefur verið gripið til þess ráðs, sem
oft hefur hjálpað að sverfa eða brjóta gaddinn með sérstakri töng. Rétt er að taka fram, að það
sem hestamenn kalla gadd í hrossum, og er tilkomið vegna misslits á jöxlum, einkum þó
glerungi þeirra og er nær alltaf óskylt flúoreitrun. Flúor getur örvað beinfrumur til að mynda
óeðlilegt bein. Fætlur eru áhlæði af slíku frauðkenndu beini á fótleggjum, og slíkir beinhnjóskar
koma á fleiri bein svo sem kjálka og rifbein. Sagt er þá að skepnan sé skert eða beinskert. Mikil
eymsli merkjast, ef tekið er á hnjóskunum nýmynduðum. Þeir eru mjúkir ,,svo tálga má þá sem
ost".
ÚTSKOLUN FLÚORS
Um leið og rignir skolast auðleyst flúorsambönd úr öskunni, hættan minnkar. Þegar rignt hafði
duglega á nýfallna ösku o.fl. í marsbyrjun 2000 hjá Hólum á Rangárvöllum var flúor ákvarðaður.
Hólar eru skammt frá Heklu. Í fínni ösku, sem féll á þeim slóðum sama dag og gosið hófst hafði
á tveimur stöðum mælst 810 og 950 ppm. Flúor í neysluvatni mældist 0,27 ppm, í
Næfurholtslæk mældist 1,07 ppm (sólbráð hafði verið og leysingavatn úr öskumenguðum snjó
runnið í lækinn um daginn), í snjó með litlu af ösku á yfirborði 0,1 ppm, í snjó með þykkara
öskulagi á yfirborði 2,30 ppm, í leysingavatni með krapa 3,80 ppm og loks í öskulagi 15-20 cm
undir yfirborðinu, sem snjóað hafði yfir og rigningarvatnið ekki náð eins til, mældist flúor 9,60
ppm.
Mengun drykkjarvatns
Ástæða er til að leiðrétta þann misskilning að öskufall eða flúorútstreymi við eldgos í
Eyjafjallajökli muni menga vatnsból Vestmanneyinga og Landeyinga. Vatnsbólið er yfirbyggt,
straumurinn er 70 sekúndulítrar og oftast flæðir meira en helmingur vatnsins út ónotað.
Notkunin er 30-40 sekúndulítrar og 50 sekúndulítrar, þegar allra mest notkun er. Flúor, sem fer
í loft og fellur til jarðar binst fljótlega í torleyst sambönd en sígur ekki niður svo mengun verði á
grunnvatni ofan í jörðu. Hins vegar þarf að vera við því búinn, að vatnslagnir geti rofnað, ef
4
miklir jarðskjálftar ganga. Nokkru eftir að Hekla hafði sent ösku yfir byggðir á Suðurlandi árið
2000 var mælt flúormagn í vatnsveitum Vestmannaeyinga, Landeyinga og Hvolhreppinga.
Niðurstöður eru þessar: Vestmannaeyja- og Austur-Landeyjaveita: 0,16 ppm F, Vestur-
Landeyjaveita: 0,19 ppm F og Hvolhreppsveita: 0,24 ppm F. Í neysluvatni Reykvíkinga er flúor
um það bil 0,02 ppm. Hámark sem leyft er hér á landi í neysluvatni er 1,5 ppm. Allt er þetta
innan öruggra marka. Rétt er að hafa það í huga, að vatnsveitur eða annað drykkjarvatn fyrir
menn og dýr, sem safnað er af yfirborði en ekki úr uppsprettum getur hæglega mengast flúor í
eldgosum.
ÖNNUR EITUREFNI
Fleiri eitruð gosefni má nefna svo sem koltvíoxíð eða CO2, sem er algeng lofttegund. Vegna
mikillar eðlisþyngdar sígur hún niður í bolla og dældir í landinu og myndar þar dauðapolla.
Skepnur og menn sem fara ofan í þær dældir geta sem hægast kafnað. Mikill fiskadauði í
vötnum, lækjum og ám verður stundum í eldgosum. Orsökin er líklega sú, að fín askan, sem
fellur í vatn, sest í tálknin ,,lungu fiskanna", truflar súrefnisnám og fiskarnir deyja þess vegna,
e.t.v.
Brennisteinsvetni (H2S) er háeitruð lofttegund sem truflar m.a. orkunám í frumum. Hún mun
hafa drepið fugla í jökulhlaupum og fólki getur verið hætta búin af þessari lofttegund. 'Til
sérstakrar gátar er, að lyktin sem er sterk og óþægileg ,,hverfur" þegar styrkurinn er orðinn
lífshættulegur. Rætt er um súrt regn í eldgosum.
Saltsýra og jafnvel brennisteinssýra og flússýra sem fylgja gosefnum í litlum mæli geta
valdið óþægindum, jafnvel brennt hörund. Lýst er ullar- og hárlosi sem afleiðingu eldgosa.
Kvikasilfur finnst oft í talsverðu magni í gosmekki (t.d. í Vestmannaeyjagosinu). Mælingar hafa
sýnt, að kvikasilfur í Íslendingum er lítið eða fremur lítið.
Háeitraður málmur, þallín (thallium), sem notaður hefur verið sem rottueitur og ýmis fleiri efni,
sem þekkt eru að því að valda eitrunum í dýrum og fólki, finnast stundum í gosefnum. Engin
örugg dæmi eru þekkt um eitranir af völdum þeirra við eldgos hér á landi, enda er magnið lítið.
Styrkurinn getur þó verið mikill á örlitlum svæðum í útfellingum.
ÖNNUR ÁHRIF ELDGOSA
Auk hugsanlegra eituráhrifa eru í fyrsta lagi hin ertandi og svarfandi áhrif öskunnar. Fíngerð
öskukorn líkjast glerbrotum. Öskuryk sem berst á slímhúð getur rispað og ert, valdið sársauka,
fínum blæðingum og bólgum í loftvegum og lungum, augnrennsli og sjóndepru. ,,Súrnar sjáldur
í augum". Þegar menguð aska berst með beitarplöntum eða heyi ofan í skepnurnar getur það
valdið niðurgangi, jafnvel blóðugum. Þar er væntanlega bæði um að ræða svarfandi áhrif og
eituráhrif. Aska misjafnlega gróf veldur fótsæri og helti, slítur upp klaufum og hófum við það eitt
að ganga á öskunni eða krafsa á beit í snjó. Vel þekkt er slit á framtönnum og misslit á jöxlum,
sem víða um land er kallað gaddur, þótt ekki sé um flúoreitrun að ræða, heldur svarfandi áhrif
löngu fallinnar ösku og vikurs, sem flúorinn hefur þvegist úr eða bara sands.
Í öðru lagi er spilling á beitilandi og rýrnun á heyfeng, sem getur valdið áföllum og vanþrifum í
fénaði og fénaðarfelli, ef öskufall verður á stórum svæðum í byggð og beitilöndum og ekki tekst
að koma skepnunum til bjargar í tæka tíð.
5
Í þriðja lagi er svo hætta fyrir fénað og fólk af flóðum. Það er vitanlega mesta hættan af
Kötlugosum og öðrum eldsumbrotum undir jöklum a.m.k. fyrstu klukkutímana.
Í fjórða lagi má ekki gleyma því, að ljósagangur af eldingum, og drunur af reiðarslögum og
sprengingum geta valdið miklum ótta hjá dýrum (t.d. hross og hundar) og þau týnt sér á flótta.
Loks má nefna hættu fyrir dýr, ef húsaþök sligast undan öskudyngjum eða hrynja í
jarðskjálftum.
ÁHRIF KÖTLUGOSS Á DÝRALÍF
Hætta á flúoreitrun er minni af Kötlugosum en Heklugosum. Flúor í bergi er talsvert minni á
Kötlusvæðinu en á Heklusvæðinu. Við eldgos upp um jökul er auk þess reiknað með því að
bráðið vatnið skoli flúornum í fyrstu lotu úr öskunni og hættan minnki við það. Engar sögur fara
af flúoreitrun í lýsingum af Kötlugosum og afleiðingum þeirra. Allur vari er samt góður. Við því
má búast að flúor í hættulegu magni finnist í ösku, ef gos heldur áfram ef fjall myndast, sem
stendur upp úr vatni og ís. Verði gos frá súrgúlum svokölluðum við jaðar öskjunnar, sem er
undir Mýrdalsjökli gæti hættan orðið meiri þar sem bergið er ísúrt, súrara en undir öskjunni
sjálfri og talið flúorauðugra.
Fyrstu viðbrögð í Kötlugosi eru því ekki vegna flúoreitrunar heldur rýming svæða, ef hætta er á
flóði. Flytja má önnur húsdýr en jórturdýr undan flóðahættu hvert sem er. Sveitarstjórn þarf að
fá leyfi yfirdýralæknis, ef flytja þarf sauðfé eða nautgripi milli varnarhólfa. Finna þarf staði, þar
sem ekki er hætta á snertingu við önnur jórturdýr. Hafa skal tiltæka skrá með fjölda og
staðsetningu búfjár á hugsanlegum hættusvæðum. Sama gildir um heimilisdýr eða gæludýr á
hugsanlegum flóðasvæðum. Eigendur þeirra þurfa að eiga búr til flutnings á þeim og finna þeim
húsaskjól.
ÁHRIF Á DÝR AF GOSI Í EYJAFJALLAJÖKLI
Hætta á flúoreitrun og skemmdum í byggð er öll önnur og meiri af gosum úr Eyjafjallajökli en
Kötlu. Í jöklinum er berg svipað og á Heklu svæðinu þ.e. með þrefalt magn af flúor, enda bera
lýsingar af gosinu 1821-23 með sér að flúoreitrun hefur orðið þá, m.a. í hrossum, gagnstætt því
sem ráða má af lýsingum á Kötlugosum. Þensla mældist á takmörkuðu svæði í jöklinum eða
neðan hans haustið 1999 sunnan megin, upp af Seljavöllum og inn af Þorvaldseyri. Ekki var það
talin bending um meiri goshættu þar en merki um kvikuuppstreymi. Kvikan storknar, ef hún
nær ekki að brjótast í slíkri lotu alla leið út til yfirborðsins og við það dregur úr líkum á gosi á
þeim stað. Tappi myndast í sprungunni. Gos með tilheyrandi vatnavöxtum getur hafist hvort
heldur sem er sunnan megin eða norðan megin, ef gýs undir jökli.
Jökulhettan á Eyjafjalla-skallanum gamla er þunn. Því verða varla stórflóð, sem stefna lífi eða
heilsu fólks eða búpenings í voða, þótt gos hefjist undir sjálfum jöklinum. Spilling getur þó orðið
á landi og vegir farið úr sambandi af vatnavöxtum og valdið erfiðleikum við að bjarga skepnum.
Hins vegar getur einnig gosið neðan jökulhettunnar. Þekkt eru um 20 hraungos eftir ísöld í
hlíðum fjallsins neðan allra ísa. Við gos þar mun flúoreitrunar gæta frá fyrstu stund en nokkru
síðar ef gos hefst undir jökulhettunni, sem er þunn þ.e. engin skál eða dalur eins og undir
Mýrdalsjökli.
6
Viðbrögð við gosi í Eyjafjallajökli færu eftir árstíð og aðstæðum en yrðu þó svipuð í fyrstu og
viðbrögð við gosi í Kötlu. Þegar gos hefst, þarf strax að huga að því að safna saman og taka á
hús það sem unnt er af fénaði sem úti er, einkum þar sem hætta er á öskufalli. Halda þarf frá
beit, t.d. með rafgirðingum sem auðvelt er að setja upp með litlum fyrirvara, grasbítum sem
ekki verða hýstir, þ.e. einkum hrossum. Hvatt er til að slíkar girðingar séu til í nægilegu magni í
verslunum. FYRIRHYGGJUSAMIR KAUPA SJÁLFIR SLÍKAN BÚNAÐ ótilkvaddir.
Tryggja þarf skepnum, sem úti eru ómengað fóður og rennandi vatn annað hvort í lækjum eða
úr vatnslögnum. Hindra þarf aðgang skepnanna að beit og pollum eða grunnum vötnum og
lygnu straumvatni, sem gæti mengast tímabundið af flúorríkri ösku eða vikurflákum.
Flytja getur þurft fénað burt af öskufallssvæðum, einkum yngri dýr. Skynsamlegt gæti verið að
fresta slætti þar til rignt hefur á öskuna eða flúormengun minnkað. Menn gætu þurft að bjarga
heyöflun með grænfóðurrækt þar sem kostur er eða með því að flytja að ómengað hey.
Steinefnablöndur hafa verið settar saman fyrir búfé á svæðum í grennd við álver erlendis. Þær
blöndur eru kalkríkar og oft einnig með álsöltum. Bæði þau efni binda flúor fljótt og vel.
Mismunandi skoðanir eru þó á gagnsemi þeirra til að afstýra flúoreitrun.