Áhrif ferðamanna á seli rannsökuð
Á heimasíðu Selaseturs Íslands segir að sumarið 2008 hafi setrup tekið þátt í rannsóknarverkefni sem bar nafnið “Áhrif ferðamanna á atferli villtra dýra”. Yfir markmið rannsóknarinnar var að skoða hvort aukning náttúruferðamennsku á Íslandi hefði áhrif á atferli dýra í náttúrulegu umhverfi sínu.
Markmið Selasetursins með þessari rannsókn voru að:
telja seli og finna svör við hvaða þættir hafa áhrif á möguleika að sjá seli á landi
kanna áhrif ferðamanna á fjölda sela
kanna sambandið á milli fjölda sela og þátta eins og mismunandi tímabil sumars, tíma dags og sjávarfalla
kanna hvernig selir verja tíma sínum á landi.
Rannsóknin fór fram á Illugastöðum á Vatnsnesi, en þar eru látur á 3 skerjum 100 – 200 m frá landi. Einnig voru taldir selir víðar á Vatnsnesinu, þ.á.m. á Svalbarði og í Hindisvík.
Niðurstöður rannsóknarinnar voru þær að selir í látrum á Illugastöðum virtust, til skemmri tíma, ekki verða fyrir mikilli truflun af völdum ferðamanna. Ástæður fyrir því eru taldar nokkrar, m.a. sú staðreynd að ferðamenn komast ekki nær selunum en þessa 100 m sem eru á milli látursins á viðkomandi skeri og skoðunarstaðarins sjálfs. Þetta ber vitni um einstaklega hagstæðar aðstæður til selaskoðunar á Illugastöðum, bæði fyrir menn og dýr. Þessar niðurstöður segja þó ekki til um langtíma áhrifa ferðamanna á stofninn í heild, til þess þarf frekari rannsóknir sem ráðist verður í á svæðinu næstu 3 sumur.
Samstarfsaðilar verkefnisins voru Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Húsavík, sem skoðaði hvali á Skjálfandaflóa og Melrakkasetrið á Súðavík, sem skoðaði refi á Hornströndum. Verkefnið, sem er undirbúningsrannsókn fyrir hið alþjóðlega Wild North verkefni, var styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna. Starfsmaður rannsóknarinnar var Sandra M. Granquist, líffræðingur.