Ákveðið að peningar frá Héraðsnefnd Strandasýslu renni í Riis-húsið
Húnaþing vestra hefur ákveðið að verja þeim fjármunum sem sveitarfélagið fékk við slit Héraðsnefndar Strandasýslu til endurbyggingar Riis-hússins á Borðeyri. Í frétt á Húnahorninu segir að Héraðsnefnd Strandasýslu hafi nýverið verið slitið en Húnaþing vestra varð aðili að nefndinni við sameiningu sveitarfélagsins við Bæjarhrepp. Við slitin var bankainnistæðum nefndarinnar skipt á milli þeirra sveitarfélaga sem áttu aðild að henni.
Hlutur Húnaþings vestra, að frádregnum kostnaði vegna endurskoðunar við slit nefndarinnar, nam alls 648.686 krónum. Byggðarráð Húnaþings vestra telur eðlilegt að fjármunirnir renni til verkefnis á svæðinu sem var hluti af héraðsnefndinni á meðan hún var starfandi. Á fundi ráðsins fyrir jól var því samþykkt að styrkja Áhugamannafélag um endurbyggingu Riis-húss á Borðeyri um þá fjárhæð sem sveitarfélaginu hlotnaðist, eða 648.686 krónur.
Riis-húsið er eitt af helstu menningar- og söguminjum Borðeyrar og hefur endurbygging þess verið í höndum áhugamanna undanfarin ár.
Frétt af Húni.is
