Aldarafmæli Verzlunar Haraldar Júlíussonar

Verzlun Haraldar Júlíussonar, sem í daglegu tali Skagfirðinga er oftast kölluð Verslun Bjarna Har. eða bara Bjarni Har.,  fagnar aldar afmæli um þessar mundir. Í tilefni þess verður blásið til afmælisfagnaðar við verslunina næsta laugardag, 29. júní.

Verslun Haraldar Júlíussonar er með allra elstu krambúðum landsins en hún hefur starfað óslitið frá 1919 og er að mestu óbreytt frá 1930 þegar húsið sem hún er í nú var reist. Þar hóf Haraldur Júlíusson verslunarrekstur og rak hann búðina ásamt konu sinni, Guðrúnu Bjarnadóttur, þar til hann féll frá árið 1973 en þá tók Bjarni, sonur hans, við rekstrinum.

Í tilefni af afmælinu verður dagskrá frá klukkan 13 til 16 á laugardaginn og vonast fjölskyldan til að sjá þar sem flesta viðskiptavini og kunningja, jafnt heimamenn sem brottflutta. Í auglýsingu frá versluninni segir að í boði verði skagfirskur tónlistarflutningur undir stjórn Stefáns R. Gíslasonar, veitingar og ávörp en umfram allt verði þó góðra vina fundur þar sem fólk eigi saman ánægjulega stund undir skagfirskum bláhimni, á kunnuglegum slóðum við verslunina sem verður opin meðan á hátíðahöldunum stendur.

Bjarni og Dísa, kona hans, biðja þess í auglýsingunni að fólk íþyngi þeim ekki með gjöfum og blómum en þeim sem vilja láta eitthvað af hendi rakna er bent á Sauðárkrókskirkju, reikningsnúmer 0310-22-000980, kt. 560269-7659.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir