Aldrei láta neinn segja þér að eitthvað sé ekki hægt :: Pétur Arason í Fermingarblaði Feykis

Pétur Arason, sveitarstjóri Húnabyggðar. Aðsendar myndir.
Pétur Arason, sveitarstjóri Húnabyggðar. Aðsendar myndir.

Síðasta sumar var Pétur Arason ráðinn fyrsti sveitarstjóri hins nýja sveitarfélags, Húnabyggðar, sem varð til við sameiningu Blönduósbæjar og Húnavatnshrepps en hann var valinn úr hópi 14 umsækjenda. Pétur er fæddur og uppalinn á Blönduósi og hefur mikil tengsl við Húnabyggð, eins og fram kom í tilkynningu um ráðninguna á sínum tíma.

Þar kom jafnframt fram að Pétur væri reynslumikill stjórnandi sem starfað hefur bæði hjá erlendum og innlendum fyrirtækjum og sem ráðgjafi hafi hann unnið með fjölda fyrirtækja, sveitarfélaga, stofnana og félagasamtaka. Þá hefur hann umfangsmikla reynslu af stefnumótunar- og umbreytingaverkefnum bæði í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi og á íslenskum atvinnumarkaði, hefur kennt við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík og haldið fjölmörg námskeið um nútíma stjórnunaraðferðir.

„Ég er spenntur fyrir þessari skemmtilegu og krefjandi áskorun. Ég hef mikla trú á svæðinu og veit að þar er hægt að gera frábæra hluti og gera gott samfélag ennþá betra. Ég hlakka til að starfa með fólkinu, virkja hugvit þeirra og hjálpa þeim og öðrum sem vilja koma að uppbyggingunni að hrinda spennandi verkefnum af stað. Það er mikill mannauður í þessu sveitarfélagi og ég sé endalaus tækifæri til þess að skapa sterka og sjálfbæra framtíð fyrir íbúa svæðisins,“ sagði Pétur er hann var kynntur til sveitarstórastarfans.

Feykir leitaði til sveitarstjórans um að svara nokkrum laufléttum spurningum í Fermingarblað Feykis sem hann að sjálfsögðu tók vel í.

Pétur er af árgangi 1970, hefur meistaragráðu í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Álaborg en segist samt bara vera ósköp venjulegur verkfræðingur með mikinn áhuga á náttúrunni og nýsköpun og að skilja heiminn sem við lifum í sem heildstætt kerfi. „Síðan hefur áhugi minn á íslensku sauðkindinni vaxið með hverjum degi eftir að ég tók til starfa sem sveitarstjóri.“

Tindur Huginn hjá ömmu og afa.

Pétur er kvæntur Katrínu M. Guðjónsdóttur sem ráðin var framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, SSNV, um svipað leyti og Pétur tók við sveitarstjórnarstólnum, og hefur hún það hlutverk að byggja upp samfélagið á Norðurlandi vestra í samstarfi við sveitafélög og sveitastjóra á svæðinu.

„Við eigum þrjú börn, Sunnevu Rán, Þórunni Sölku og Pétur Ara og síðan eigum við tvö barnabörn sem heita Yrja Katrín og Tindur Huginn,“ segir Pétur sem einnig bendir á að ræturnar liggi víða. „Ég er Húnvetningur í báðar ættir, ættaður frá Blönduósi, Hjaltabakka, Húnsstöðum, Köldukinn og Bollastöðum svo eitthvað sé tínt til. Síðan á ég einnig ættir að rekja til Skagafjarðar t.d. Brúnastaða, Nautabús og Valadals en Jón Pétursson, eigandi hestsins Stíganda var langalangafi minn.“ Þar vísar Pétur til gæðingsins sem fyrrum hestamannfélag framsveitar Skagafjarðar hét eftir en hesturinn var ýmist kenndur við Eyhildarholt, Nautabú eða Valadal, framúrskarandi gæðingur og stolt eiganda síns og ógleymanlegur öllum þeim sem á vegi hans urðu.

Vegir guðs er órannsakanlegir

Hvað kom til að þú ákvaðst að sækja um sveitarstjórnarstöðu í Húnabyggð?

Brugðið á leik með Yrju Katrínu.

„Einfalda svarið væri sauðkindin, en þá væri ég að segja ósatt. Ætli það séu ekki ræturnar sem toga í mann og síðan löngunin að vera með í því skemmtilega og mikilvæga verkefni að efla og styrkja samfélagið í Húnabyggð,“ svarar Pétur.

En hvað skyldi vera skemmtilegast við starfið?
„Að brasa með mismunandi fólki alla daga, skoða mál og velta fyrir sér hvernig sé best að leysa málin á farsælan og sjálfbæran hátt. Ég hef aldrei prófað að vinna við að þróa samfélag áður og mér finnst það mjög skemmtilegt.“ Aðspurður um hvað hafi komið honum mest á óvart svarar hann hversu vegir guðs séu órannsakanlegir.

Helstu áhugamál sveitarstjórans eru útivera, sama í hvaða formi hún er en honum finnst gaman að ganga á fjöll, hlaupa utan vega, vera á skíðum, veiða og þannig má áfram telja.

Hvernig gengur að stunda þau?
„Ekki alveg nógu vel undanfarið, en hér á svæðinu eru samt óteljandi möguleikar í útivist, Tindastóllinn er flott skíðasvæði og Vatnahverfið við Blönduós útvistarparadís t.d. fyrir gönguskíði á veturna.

Einhver góð saga?
„Grettissaga er frábær saga með upphaf og endi á okkar svæði og auðvitað fræga glímu við drauginn Glám hér í Húnabyggð.“

Sinclair Spectrum tölva og Soda Stream tæki

Ungur og myndarlegur fermingardrengur.

Ekki sleppur Pétur við fermingarspurningar í þessu fermingarblaði Feykis og fer vel á því að forvitnast um hvað hafi verið eftirminnilegast við fermingardaginn eða undirbúninginn.

„Ég var fluttur suður þegar ég fermdist og gekk því til prests fyrir sunnan, en kom hingað og séra Árni Sigurðsson fermdi minn árgang í gömlu kirkjunni á Blönduósi. Ég þurfti að koma norður og svara Árna í undirbúningnum og man eftir því að hann var ekkert að stressa sig allt of mikið á þessu og hjálpaði mér í gegnum þetta.“

Ertu trúaður?
„Ég held að ég sé eins og margir, ekkert sérstaklega trúaður, allavega ekki ef við mælum þetta í kirkjurækni. Ég trúi á það góða í fólki og að maður eigi að koma fram við aðra eins og maður vill að aðrir komi fram við sig.“

Hver var heitasta fermingargjöfin á þessum tíma?
„Held að það hafi verið peningar og svo var mismunandi hvað maður keypti fyrir þá. Ég keypti mér Sinclair Spectrum tölvu og Soda Stream tæki, sem voru bæði mjög góðar fjárfestingar.“

Áttu einhverja fermingargjöfina enn í dag?
„Sálmabókin er á sínum stað í bókahillunni.“

Feykir þakkar Pétri fyrir skemmtilegt viðtal og í lokin gefur hann góð heilræði til unga fólksins sem reyndar gagnast þeim eldri einnig ágætlega: „Held að það sé mikilvægt fyrir ungt fólk á þessum tímamótum að muna að hafa óbilandi trú á sjálfum sér. Það getur hver sem er gert hvað sem er ef viðkomandi langar það nógu mikið. Aldrei láta neinn segja þér að eitthvað sé ekki hægt.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir