Anna Jansson, prófessor við Háskólann á Hólum, valin kennari ársins hjá SLU

Anna Jansson, prófessor við hestafræðideild Háskólans á Hólum, sem einnig er prófessor við sænska landbúnaðarháskólann í Uppsölum, hefur hlotið útnefningu sem kennari ársins við SLU í Uppsölum. Þar sinnir hún kennslu og rannsóknum er lúta að fóðrun og hirðingu hrossa.

Stúdentafélagið í Ultuna (sem er aðalaðsetur SLU) hefur fyrir sið að útnefna „kennara ársins“. Fer valið þannig fram að nemendur tilnefna þá kennara sem til greina koma, og stúdentaráð velur síðan endanlega úr tilnefningunum. Sem áður segir er það Anna Jansson sem hefur verið útnefnd, og fer formleg afhending verðlaunanna fram á Lúsíuhátíð stúdentafélagsins þann 13. desember nk.

Í umsögn dómnefndar segir meðal annars að auk kennslunnar sjálfrar svari Anna spurningum nemenda, velti upp nýjum og gefi góð ráð, sem séu eiginleikar er hvetji nemendur til að vera stöðugt að leita nýrrar og dýpri þekkingar. Kennsla hennar einkennist af áhugaverðum umræðum og kennslufræðilegum svörum við öllum spurningum.

Þess má geta að sl. fimmtudag varði einn af nemendum Önnu doktorsritgerð sína um fóðrun „standardbred“ keppnishrossa, og Anna er einnig aðalleiðbeinandi Guðrúnar Jóhönnu Stefánsdóttur, eins af kennurunum við hestafræðideild Háskólans á Hólum, en hún er einmitt í námsleyfi í Uppsölum þetta skólaár.

Fleiri fréttir