Jólatréssalan á Eyrinni komin í gang
Jólatréssala körfuknattleiksdeilar Tindastóls fór í gang í dag og nú er ekkert annað í stöðunni en mæta á sama gamla góða staðinn á Eyrinni, hitta fyrir eldhressa körfuboltamenn og fara heim með jólin í skottinu – enda ekkert betra en ilmurinn af lifandi tré yfir jólin.
Í tilkynningu frá körfuknattleiksdeildinni kemur fram að jólatréssalan verður í öðrum bragganum hjá vinum körfuboltans í byggingavörudeild KS. Sama góða verðið verður í ár eins og síðustu ár. Opið verður í dag, á morgun fimmtudag, föstuag og svo aftir á mánudaginn á milli kl. 13 og 18.
Þjónustan er engu lík en Skúli Jóns mun keyra trjám til kaupenda eftir lokun á daginn eða eftir samkomulagi þar um. Einnig er hægt að hafa samband við Skúla eftir hádegi í síma 864 5305 og hann mun velja tré og koma með það heim að dyrum – allt eftir óskum viðskiptavina.
Þeir sem vilja láta reyna á lukkuna geta keypt miða í Jólahappdrætti körfuknattleiksdeildar Tindastóls í jólatréssölunni. Þetta getur ekki klikkað!
