Annað þing Ríkíní, félags um forna tónlist
Annað þing Ríkíní, félags um forna tónlist verður haldið á Hólum í Hjaltadal helgina 27. til 29. ágúst. Félagið var stofnað fyrir tveimur árum af áhugafólki og fræðimönnum um fornan tónlistararf Íslendinga.
Í íslenskum handritum er allmikið af tónlist og mest af henni hefur ekki verið flutt eða komið fyrir eyru manna öldum saman. Markmið félagsins er að styðja við flutning og rannsóknir á þessum forna arfi. Þing félagsins sem nú er haldið öðru sinni á Hólum er samkoma þar sem áhuga og fræðimenn leiða saman hesta sína og segja frá því markverðasta sem þeir hafa verið að skoða. Jafnframt er flutt tónlist og þingmenn syngja saman messu.
Öllum er frjáls aðgangur að þinginu og ekkert þing-gjald tekið af gestum. Fólk þarf hvorki að vera tónlistar- né fræðimenn til að njóta þess sem boðið er uppá. Ferðaþjónustan á Hólum hefur gert gestum gott tilboð í gistingu og uppihald. Á þinginu í ár verður sungin messa eftir messuköflum Ærlækjarbókar sem er skinnhandrit frá því um 1500 og Sverrir Tómasson mun fjalla um handritið og heilagan Nikulás.
Voches Thules leiða sönginn. Einnig verður Árni Heimir Ingólfsson með erindi um handritsbrot frá 15. öld og Spilmenn Ríkínís kynna veraldlegu lögin í handritinu Melodia og leika á hljóðfæri sín. Messan verður sungin á sunnudeginum kl.11:00. Eftir hádegi verða síðan tónleikar á vegum félagsins í Hóladómkirkju. Eins og áður sagði eru allir velkomnir.
Nánari upplýsingar veitir Örn Magnússon (s. 862 3119 / 551 3119, omag@ismennt.is)
- Dagskrá þingsins
- fer fram í Auðunarstofu nema annað sé tekið fram.
- Föstudagur, 27. ágúst
- kl:20:00 Voches Thules: Messukaflar í Ærlækjarbók. Kynning og fyrsta æfing fyrir messu sunnudagsins.
- Laugardagur, 28. ágúst
- kl:10:00 -12:00 Voches Thules: Messukaflar í Ærlækjarbók, önnur æfing fyrir messu sunnudagsins.
- kl:13:30-14:20 Spilmenn Ríkínís: Veraldlegu lögin í Melodia handritinu.
- Spilmenn spjalla um hugsanlegan aldur, uppruna og útsetningar í bland við tónlistarflutninginn.
- kl:14:30 -15:30 Sverrir Tómasson. „Bið fyrir mér dándikall“. Nikulás saga og Nikuláss tíðir í Ærlækjarbók, AM 640 4to, handriti frá lokum 15. aldar.
- kl:17:00 -18:00 Árni Heimir Ingólfsson. Tvísöngur og tripl í AM 687b 4to.
- Sunnudagur 29. ágúst
- kl: 9:00-10:00 Aðalfundur Ríkínífélagsins
- kl:10:00-10:30 Síðasta æfing fyrir messuna.
- kl:11:00 Sungin messa í Hóladómkirkju eftir messuköflum Ærlækjarbókar. Voches Thules leiða sönginn. Sr. Hjörtur Pálsson predikar og Sr. Jón Aðalsteinn Baldvinsson vígslubiskup þjónar fyrir altari.
- kl:14:00 Tónleikar í Hóladómkirkju á vegum Ríkíní félagsins.
- kl: 15:00 Kveðjur og þingslit.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.