Annar fundur sameiningarnefndar Austur-Húnavatnssýslu

Annar fundur sameiningarnefndar Austur-Húnavatnssýslu var haldinn þann 6. desember sl. Meðal málefna fundarins var ráðning ráðgjafafyrirtækis vegna verkefnisins, aðkoma Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga að verkefninu og þóknanir til nefndarmanna.

Fyrir fundinum lágu kynningar á ráðgjafafyrirtækjunum KPMG – endurskoðun, RR – ráðgjöf ehf. og Ráðrík ehf. Ekki hafði verið óskað sérstaklega eftir tilboðum og því lá verðsamanburður ekki fyrir í fyrirliggjandi kynningum. Eftir miklar umræður um ráðgjöf og ráðgjafa þar sem sitt sýndist hverjum um hvert leita skyldi var niðurstaða fundarins að hefja viðræður við Ráðrík ehf. um verkefnið.

Rætt var um tímaáætlun verkefnisins og um áhrif sameingarumræðu á sveitarstjórnarkosningar næsta vor. Þá var rætt um nauðsyn þess að hvati til sameiningar komi frá stjórnvöldum í formi sameiginlegra verkefna/hagsmuna í uppbyggingu atvinnulífs eða innviða samfélaganna í Austur-Húnavatnssýslu og var í framhaldi af þeim umræðum ákveðið að kynna málið fyrir sveitarstjórnarráðherra og óska eftir stuðningi við að koma á nýjum möguleikum og tækifærum í héraðinu.

Vinnureglur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um úthlutun framlaga vegna könnunar á hagkvæmni sameiningar, kynningar á sameiningartillögum og framkvæmd atkvæðagreiðslu lágu fyrir fundinum ásamt samantekt um áætluð framlög vegna sameiningar sveitarfélaganna.

Lagt var til að þóknanir vegna starfa sameiningarnefndar verði sambærileg við kjör nefnda og ráða í byggðasamlögum sveitarfélaganna og var sú tillaga samþykkt.

Þá var ákeðið að skipa fjögurra manna framkvæmdaráð sem í sitji oddvitar sveitarfélaganna undir formennsku Þorleifs Ingvarssonar. Hlutverk framkvæmdaráðsins verði að stýra verkefninu milli funda sameiningarnefndar, annast viðræður við ráðgjafafyrirtæki, viðræður við Jöfnunarsjóð, ráðherra og ráðuneyti og aðra sem sameiningin kann að varða. 

Fundargerðir sameiningarnefndar má nálgast hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir